26.5.2011 | 11:25
Ríkisstjórnin reynir að eyðileggja kjarasamningana
Það er ekki hægt að segja að ríkisvaldið með sín efnahagslegu stjórntæki, sé að leggja sig fram um að tryggja kjarasamningana sem nýverið hafa verið samþykktir. Þó skipta þeir gríðarlega miklu máli. Þeir geta tryggt frið á vinnumarkaði, lagt drög að betri lífskjörum launafólks og verið ein forsenda fyrir viðreisn efnahagslífsins.
Mjög margir eiga þess vegna mjög mikið undir því að samningarnir gangi upp.
Öllum var ljóst frá upphafi að teflt væri á afar tæpt vað. Atvinnulífið er mjög veikt. Skuldir fyrirtækja í ýmsum tilvikum of miklar, hér hefur verið samdráttur, pólitísk óvissa, skattaóð ríkisstjórn og fullkomið skilningsleysi ríkjandi hjá landsfeðrunum gagnvart uppbyggingu í atvinnulifinu.
Kjarasamningarnir eru þess vegna eins konar fjöregg; brothætt fjöregg og miklu veldur um örlög þess hvernig ríkisvaldið heldur á spilum sínum.
Það er til dæmis alveg ljóst að hér þarf að verða mikil fjárfesting. Ríkisvaldið vinnur gegn því. Um stóriðjuna þarf ekki að tala. Þar er ríkisstjórnin hreint fótakefli þegar kemur að fjárfestingum. Sjávarútvegsfrumvörpin munu enn draga úr fjárfestingarvilja og getu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Beina brautin sem átti að hjálpa litlu og meðalstóru fyrirtækjunum er ekki að ganga upp. Það stefnir í gjaldþrot fjórða til þriðja hvers fyrirtækis.
Allt þetta vissu aðilar vinnumarkaðarins og settu þess vegna stífa fyrirvara inn í samningana. Sem dæmi, fyrirvara um að verðlag yrði að vera stöðugt og gengi krónunnar að styrkjast. Sterkara gengi lækkar nefnileg innflutningsverðlag og bætir þannig kaupmátt og slær síðan á hækkanir á lánum vegna verðtryggingar.
Það er þess vegna gífurlegt áhyggjuefni hvernig þessar hagstærðir eru að þróast. Gengi krónunnar fellur nær stöðugt. Hefur lækkað um 4 til 5% frá áramótum. Og nú er að hellast yfir okkur verðbólga. Það er mikið áhyggjuefni.
Álengdar situr ráðalaus ríkisstjórnin og með hendur í skauti, nema þegar kemur að því að setja fram tillögur um að veikja sjávarútveginn. Þá eirir hún engu og stígur þann dans eins og óð væri.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook