1.6.2011 | 00:17
Samfylkingarmenn véfengja tilverurétt Íbúðalánasjóðs
Við flestar aðstæður hefðu yfirlýsingar tveggja áhrifamikilla stjórnarliða um Íbúðalánasjóð vakið mikla athygli og kallað á heiftarleg viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og eftir atvikum Guðbjarts Hannessonar velferðrráðherra líka, en hann er yfirmaður sjóðsins.
Ummæli Árna Páls Árnasonar efnahags og viðskiptaráðherra um að lítið gagn sé í Íbúðalánasjóði sem ekki geti mætt fólki í vanda með sama hætti og fyrirtæki á markaði.
Helgi Hjörvar formaður efnahags og skattanefndar Alþingis hjó í sama knérunn á Alþingi í dag og taldi einboðið að Íbúðalánasjóður bjóði viðskiptavinum sínum upp sambærilegar lausnir í skuldamálum og Landsbankinn kynnti í síðustu viku. Að öðrum kosti sé tilgangslaust fyrir ríkið að reka sjóðinn.
Þetta er eins skýrt og það getur orðið. Þeir setja í raun spurningamerki við tilverurétt sjóðsins. Íbúðalánasjóður stendur sig ekki að dómi þessara áhrifamanna. Hann er á skilorði. Annað hvort fylgir hann fordæmi Landsbankans og lækkar skuldir fólks til muna, ellegar er ekkert gagn að honum og hann má þá hverfa.
Rifjast nú upp heitstrengingar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hversu oft hefur hún ekki svarið Íbúðalánasjóði hollustueiða? Hversu mjög hefur hún heitið því að sú stofnun skuli vara að eilífu? Hversu oft hefur hún sagt að hún sé sérstakur bjargvættur sjóðsins og varist þegar að honum hafi verið sótt af fjendum hans?
Og hélt hún ekki eina lengstu þingræðu íslandssögunnar í baráttu sinni fyrir óbreyttu húsnæðiskerfi þar sem Íbúðalánasjóður gegndi lykilhlutverki.
Nú hlýtur hún að draga upp byssubranda sína, sé í henni einhver töggur. Úr hennar eigin liði er sagt að þessi mikla stofnun ríkisins, sé eftirbátur fjármálastofnana sem láta markaðsöflin ( hin voðalegu) ráða gjörðum sínum. Það er varla hægt að kveða nöturlegar að orði. Hin félagslega stofnun stendur sig verr í úrræðum fyrir almenning, en fyrirtæki sem láta gróðasjónarmiðin ráða
Í seinni tíð amk. hefur tilveruréttur Íbúðalánasjóðs, aldrei verið svo hraustlega verið dreginn í efa. Og því sjónarmiði er flaggað innan úr borgarmúrum Samfylkingarinnar. Þetta eru mikil pólitísk tíðindi, sem óhjákvæmilega hljóta að hafa eftirmála
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook