19.6.2011 | 22:52
Í nafni kreddu þar sem allir tapa
Ábyrgðarmenn hinna óvinsælu sjávarútvegsfrumvarpa ríkisstjórnarinnar hafa nú í dag samræmt varnir sínar, eftir að þau fengu falleinkunn hjá sérfræðingahópnum sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra skipaði til þess að meta áhrif þeirra. Þetta má sjá í svörum Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur formanns sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar Alþingis og Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
Í viðbrögðum þeirra vottar ekki fyrir tilraun til þess að véfengja niðurstöður sérfræðingahópsins. Þess í stað er einfaldlega sagt að auðlindanýting snúist um fleira en krónur og aura.
Þetta er athyglisvert sjónarmið. En hvað felur það í sér? Hér er greinilega verið að kynna þann boðskap að sjávarútvegurinn eigi ekki að lúta sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar. Reka eigi sjávarútveginn á grundvelli félagslegra sjónarmiða.
Þetta er kunnuglegt stef. Þeir kyrja það til dæmis í ESB, þar sem sjávarútvegurinn er rekinn eftir þessum lögmálum og fær síðan styrki upp á milljarða hundruð frá skattborgurunum.
Og síðan hitt. Með því að sjávarútvegurinn verði ekki rekinn á grundvelli hagræðingar og hagkvæmni, verður afkoman lakari. Á meðan aðrar atvinnugreinar hér á landi auka framleiðni sína og á meðan sjávarútvegur samkeppnislanda okkar nær vopnum sínum eða nýtur fjárstuðnings skattborgaranna, er sem sagt ætlunin að keyra okkar sjávarútveg inn á nýjar brautir, þar sem hann er dæmdur til þess að tapa í samkeppninni.
Hér á landi í samkeppni um fólk og fjármagn. Á samkeppnismörkuðunum í samkeppni um viðskiptavinina. Við festumst inni í vítahring láglaunaiðnaðar, sem er staðsettur á landsbyggðinni. Smám saman yfirgefur fólkið því sjávarútveginn. Ekki vegna þess að færra fólks reynist þörf. Heldur vegna þess að atvinnugreinin laðar ekki til sín starfsfólk.
Og síðan enn eitt. Í réttlætingu fyrir hærra auðlindagjaldi hafa stjórnarliðar ( einkum úr Samfylkingunni) sagt okkur að meginatriðið sé að sjávarútvegsfyrirtækin greiði hærra gjald til eiganda auðlindarinnar, ríkisins. Með þeirri stefnu sem nú er orðið viðurkennt að fylgt sé, verður afkoma sjávarútvegsins lakari. Og það hefur sérfræðingahópurinn sýnt fram á. Það leiðir síðan til þess að afgjaldið til eiganda auðlindarinnar lækkar, enda er það afkomutengt.
Það er með öðrum orðum búið að skapa vítahring, þar sem allir tapa. Og það í nafni pólitískrar kreddu - hugmyndafræði sem engum er til góðs.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook