22.6.2011 | 09:31
Örvæntingarfull leit er nú hafin
Fullkomin örvænting hefur nú gripið um sig í hópi þeirra fáu stjórnarliða sem enn reyna að bera blak af sjávarútvegsfrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Eftir ferlega útreið frumvarpanna í hópi hagsmunaaðila lágu sliturnar einar eftir. Þá birtist úttekt hagfræðinganna sex, sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra réði til þess að fara yfir efni frumvarpsins mikla um sjávarútveginn. Niðurstaða þeirra var skýr. Frumvarpið fékk einkunina 0,0; ekki einu sinni 1 fyrir viðleitni.
Þá hófst æðisgengin leit. Allar björgunarsveitir ræstar út. Og formaður og varaformaður sjávarútvegs -og landbúnaðarnefndar Alþingis, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir, lögðu til að enn ein úttektin yrði gerð. Þess ber að geta að þær eru í hinum fámenna og ört smækkandi hópi sem enn skýtur skildi fyrir frumvarpið og stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.
Reikninginn fyrir þessari úttekt vilja þær senda sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu !
Þetta á að vera viðurhlutamikil úttekt. Markmiðið er að grafast fyrir um allt það sem hið framseljanlega kvótakerfi hefði haft í för með sér, til góðs eða ills. Sem sagt að taka út kvótakerfið sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon leiddu m.a í lög og 20 ára sögu þess. Og til verksins áttu menn að fá tvo mánuði og inni í því sjálfir sumarleyfismánuðirnir!!
Þó við sjálfstæðismenn í nefndinni kysum að leggjast ekki gegn þessari athugun, gerðum við ýmsar athugasemdir. Við bentum til dæmis á, að ef talin væri þörf á slíkri athugun, hefði át að framkvæma hana áður en ríkisstjórnin setti sjávarútvegsstefnu sína í frumvarpsform. Það var þó auðvitað ekki gert, né nokkuð annað skoðað áður en sú stefnumótun fór fram.
Þetta verklag helgaðist af ótta manna við að vönduð vinnubrögð kynnu að brjóta niður sjávarútvegskreddurnar sem hafa vaðið uppi í stjórnarliðinu.
En tímasetningin á ákvörðuninni um nýju úttektina var ekki mjög heppileg. Lýsti satt að segja alveg dæmalausri seinheppni. Sama dag og ákveðið var að ráðast í úttektina, undirbúningslaust, án samráðs við nefndarmenn og eftir kortérsspjall á fundinum, kynnti OECD sína niðurstöðu um sjávarútvegsmál á Íslandi. Þar var sérstaklega varað við því að ráðast í grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Enn eitt kjaftshöggið á sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar.
Eftir því sem úttektunum fjölgar, þeim mun hraklegri verður staða sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar. Fylgismönnum hennar fækkar og að lokum munu þeir einir standa eftir sem telja sig hafa pólitíska hagsmuni af því að hanga á dellumakaríinu, eins og hundar á roði.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook