Þegar gamlar fréttir ganga aftur

 

Í því mikla flóði upplýsinga sem yfir okkur flæðir, falla fréttir fljótt í gleymskunnar dá. Þær eiga sér einatt skamman líftíma, þó sannarlega sitji oft eftir slitur, sem rifjast upp endrum og sinnum.

Sú umræða sem hefur farið fram á síðum nokkurra vefmiðla og víðar um eignarhaldið á bönkunum  er einmitt dæmi um þetta. Ólafur Arnarson skrifaði í einum af sínum reglubundnu pistlum á Pressunni að hann hefði uppgötvað eignarhaldið á „íslensku“ bönkunum. Þetta varð síðan upphafið að mikilli umræðu, nú síðast á dv.is þar sem hinar nýju fréttir voru endurteknar.

Þetta rifjaði upp að þann 28. apríl í fyrra, eða fyrir rúmu ári, lagði ég fram fyrirspurn til þáverandi viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar, sem var svona: Hverjir eru 50 stærstu kröfuhafar Glitnis og Kaupþings og þar með 50 stærstu eigendur Íslandsbanka og Arion banka miðað við nýjustu stöðu?

Ekki gekk nú alveg vandræðalaust að kreista fram svarið. Þegar mér fór að leiðast þófið hóf ég að knýja svara með því að vekja athygli á málinu í þingsal og kallaði ítrekað eftir atbeina forseta við að fá fram svör. Og loks gekk rófan. Svarið barst inn á borð okkar alþingismanna 2. júní, einum og hálfum  mánuði eftir að ég hafði lagt fram fyrirspurn mína. Á þeim tíma vakti þetta svar nokkra athygli og tel ég mig muna að bæði í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu hafi eitthvað verið um það fjallað og kannski víðar.

En skýringuna á töfinni mátti kannski sjá af þessum tilvitnuðu orðum í svari ráðherra:  „Ráðuneytið sendi fyrirspurn þessa til Fjármálaeftirlitsins. Svar barst 3. júní sl., þar sem fram kom að eftirlitið teldi sig ekki hafa heimildir til að gefa upplýsingar um 50 stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings vegna ákvæða laga um þagnarskyldu.  Þar sem fjármálaráðuneytið er kröfuhafi í ofangreindum bönkum fyrir hönd ríkissjóðs hefur það aðgang að kröfuhafaskránni. Fjármálaráðuneytið veitti efnahags- og viðskiptaráðuneytinu heimild til að taka við upplýsingum um kröfuhafa Glitnis og Kaupþings og sendu slitastjórnir bankanna upplýsingarnar á þeim grunni“.

Síðan er svarið sjálft býsna fróðlegt og læt ég nægja að vísa inn á meðfylgjandi link.

En varðandi Glitni þá eru þrír stærstu kröfuhafarnir: Burlington Loan Management ltd, 5,64%, Royal Bank of Scotland, 5,14% og Deka Bank Deutsche Girozentrale, með 2,67%. Í svari um Kaupþing eru listaðar upp kröfur, samþykktar og ósamþykktar. Þar eru stærstu kröfurnar frá Deutsche Bank Trust Company Americas, Seðlabanka Íslands og York Global Finance Offshore BDH. C/o York Capital M.

Þarna voru sem sagt útlistaðar þær upplýsingar um stöðu kröfuhafa og þar með líklega eigendur bankanna á þessum tíma. Sem sagt fréttir sem nú eru orðnar ríflega ársgamlar, en ganga svo aftur sem meint „skúbb“, svo hér sé notað gamalt blaðamanna orðfæri. Þess skal þó getið að eigendahópurinn breytist sífellt. Sjóðirnir sem um ræðir kaupa og selja kröfurnar á bankana og svo er það þannig að þeir eru ekki  beinir eigendur þrotabúa gömlu bankanna, heldur eiga þeir einungis kröfu í viðkomandi bú.

En hvað sem því líður leyfi ég mér í gamni og alvöru að taka mér í munn gamalt slagorð dagblaðsins Vísis og heimfæra það á þessa heimasíðu: www.ekg.is , fyrstu með fréttirnar !!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband