Gott hjá Ögmundi !

 

Það er engin ástæða til þess að stilla sig um að njóta þess fágæta augnabliks að hæla ráðherrum, þegar færi gefast. Þau eru ekki svo mörg, að sjálfsagt er að minnast þess með einhverjum hætti og njóta svo augnabliksins.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á hrós skilið fyrir staðfestu sína í sambandi við Reykjavíkurflugvöll. Hann hefur frá öndverðu verið talsmaður flugvallarins og sýnt það í verki sem ráðherra þess málaflokks, sem flugvallarmálin í Reykjavík heyra undir. Kom þetta til dæmis skýrt fram þegar hann svaraði fyrirspurn minni um málefni flugvallarins, sem nýr innanríkisráðherra. Þá tjáði hann sig í fyrsta skipti með afgerandi hætti sem ráðherra samgöngumála um þessi mál.

Í raun er það ótrúlegt að borgaryfirvöld hafi gert sjálfa miðstöð innanlandsflugsins, sem 400 til 500 þúsund manns nota árlega, að eins konar hornkerlingu. Núverandi borgaryfirvöld virðast ganga lengst í fullkomnu tillitsleysi við alla þá sem flugvöllinn nota; landsbyggðarfólk og þá fjölmörgu íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem eiga afkomu sína undir því að flugvöllurinn fái að standa um ókomna tíð. Það er örugglega einsdæmi að yfirvöld í einni höfuborg geri allt sem í valdi þeirra stendur til þess að eyðileggja lang helstu miðstöð innanlandssamgangna í landinu. Þannig ganga hins vegar borgaryfirvöld fram og hafa hlotið skömm fyrir.

Sannleikurinn er sá að á höfuðborgarsvæðinu er mikill stuðningur við flugvöllinn. Þeir borgarfulltrúar sem reynt hafa að fiska í gruggugu vatni andstöðunnar við völlinn hafa ekkert uppskorið nema hneisuna. Það er því ástæða til þess að hvetja sveitarstjórnarfulltrúa höfuborgarsvæðisins til þess að hefja sig upp og út úr þessari lágkúru, taka af skarið um að höfuborgin vilji vera vettvangur fyrir miðstöð góðra samgangna við landið allt og kveða upp úr um örugga framtíð Reykjavíkurflugvallar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband