Ríkisstjórn í vonlausu verki

 

 

Nýbirtar tölur um ríkisfjármálin á síðasta ári, segja okkur eitt; það er verið að reyna að vinna vonlaust verk. Stefna ríkisstjórnarinnar í efnahags og ríkisfjármálum getur ekki gengið upp. Hún vinnur í rauninni gegn markmiðum sínum og er því dæmd til þess að mistakast.

Það er alveg sama hversu margar ræður Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra flytur um strit sitt. Við færumst ekki nær markmiðunum. Það breytir engu þó skrifaðar séu greinar af hálfu oddvita ríkisstjórnarinnar um mikilverðan árangur. Okkur miðar ekkert áfram með slíku orðagjálfri. Þegar stefnan er röng þá er ekki von á góðu.

Stefna ríkisstjórnarinnar framlengir kreppuna. Við ættum nú að vera lögð af stað af krafti upp brekkuna og upp úr efnahagslægðinni. Allir vita þó að sú er ekki sagan. Við erum enn í ógnarbasli og hagvaxtarvotturinn sem glitt hefur í, stendur veikum fótum.

Þar með verður ekki nein auðsköpun í samfélaginu, enginn vöxtur, engin umsvif. Ríkisstjórnin hefur brugðist við með því að auka skatta og skera niður með handahófskenndum hætti. Þannig hefur stefnan beinlínis dýpkað kreppuna. Það verður til spírall; vítahringur sem við komumst ekki út úr.

Til þess að mæta tekjufalli ríkisins, eru skattarnir hækkaðir. Þar með dregur úr umsvifum í hagkerfinu og skatthækkanirnar skila sér ekki í ríkissjóðinn. Þá er aftur brugðið á það ráð að hækkað skattana. Enn dregst hagkerfið saman og skattarnir skila sér heldur ekki. Og svo er leiknum haldið áfram.

Þetta er vítahringurinn. Ríkisstjórnin þvælist fyrir öllum tilraunum til fjárhaglegra umsvifa, ræðst á sjávarútveginn, sem ekki fjárfestir fyrir vikið, fjandskapast gegn stóriðju, bægir erlendri fjárfestingu frá landinu og skapar svoleiðis pólitískt upplausnarástand að enginn veit hvert stefnir.

Þess vegna er ríkisstjórnin í vonlausu verki og nær engum árangri. Það sjá allir nema þeir sem helst ættu að skynja ástandið; fáeinir ráðherrar í ríkisstjórninni lánlausu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband