Matsfyrirtækin setja kíkinn fyrir blinda augað

 

 

Niðurstaðan af valdabraski bandarískra stjórnmálamanna vegna vandræða í efnahagsmálum hlýtur að valda áhyggjum. Henni má lýsa með eftirfarandi orðum: að pissa í skóinn sinn. Meginniðurstaðan er sú að heimila bandaríska ríkinu frekari lántökur. Það sem þá gerist er bara að seðlaprentsmiðja bandaríska Seðlabankans verður keyrð áfram á vöktum. Dollararnir munu streyma út í hagkerfið í gámavís. Það er búin til uppskrift að ójafnvægi í hagkerfinuog verðbólgu.

Sparnaðarákvarðanir og skattabreytingar sem eru hluti af þesu samkomulagi eru allar í skötulíki. Áður en þær líta dagsins ljós þurfa stjórnmálaflokkarnir á bandaríkjaþingi að koma sér saman um útfærsluna. Það er auðvitað allt saman sem fugl í skógi. Í hífandi óvissu.

Glöggir menn hafa svo bent á að peningarnir sem alríkisstjórnin fær með aukinni seðlaprentun muni duga fram yfir bandarísku forsetakosningarnar. Það var áhersluatriði Obama forseta í þessum viðræðum. En það er þó háð útfærslum á sköttum og sparnaði, þannig að fjendur hans í þinginu geta gert forsetanum lífið leitt, kjósi þeir það.

Þetta er grafalvarlegt mál. Bandaríska hagkerfið er þrátt fyrir allt, eimvagninn sem dregur þá  lest sem efnahagslíf heimsins er. Hjökti það, er ekki von á góðu.

Breska vikuritið Economist segir að sá aðili sem bíði lægri hlut í þessu máli öllu saman sé efnahagslífið.

En þetta allt saman nýtur blessunar matsfyrirtækjanna, Moodys, Fitsch og Standard og Poors. Þar á bæ þora menn ekki að segja sannleikann, af ótta við afleiðingarnar. Það er greinilegt að fyrirtækin taka risana í efnahagslífi heimsins öðrum tökum en minni spámennina.

Við Íslendingar fengum að kynnast því þegar fyrirtækin blönduðu sér með mjög óviðurkvæmilegum hætti inn í Icesaveumræðuna, eins og við munum. Þá stóð ekki á hótunum um lækkun lánshæfismatsins gagnvart Íslandi. Í húfi voru þar „bara“ örlög einnar lítillar þjóðar. En þegar í hlut á heimsrisinn í efnahagslífinu, þá gilda augljóslega aðrar reglur. Fyrirtækin vita sem er að neikvætt mat þeirra gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir heimsbúskapinn. Það ræður förinni; ekki efnislegt mat á stöðunni eða þeim aðgerðum sem allir eru þó sammála um að duga bandarísku efnahagslífi hvergi nærri.

Æra og orðstír matsfyrirtækjanna beið mikinn hnekki í fjármálakreppunni haustið 2008. Ekki bætir frammistaða þeirra núna rykti þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband