Alþjóðlegir erfiðleikar og handónýt ríkisstjórn

 

Grafalvarleg staða beggja megin Atlantshafsins hlýtur að koma fram hér á landi. Við erum opið lítið hagkerfi, sem er háð útflutningi. Þróunin á helstu markaðssvæðum okkar mun því hafa margvísleg áhrif.

Þar má nefna ástandið á fjármálamörkuunum. Við þurfum að sækja okkur erlent lánsfjármagn og þegar þrengist að, þá vitum við að fenginni reynslu að lítið og viðkvæmt hagkerfi verður sett aftarlega í röðina þegar kemur að því að veita lánsfé. Þegar við bætist síðan að við völd í landinu er ríkisstjórn sem ræður ekki við verkefni sitt, versnar enn í því. Eins og hér hefur verið bent á, leiðir stjórnarstefnan einfaldlega til þess að samdrátturinn verður dýpri og lengri en þörf hefði verið á.Því veldur sá vítahringur sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í.

Síðan er það hitt. Með vaxandi erfiðleikum er hættan sú að þrýstingur skapist til verðlækkana. Eftirspurnin minnkar og því svara menn með því að lækka verð. Þegar harðnar á dalnum byrja menn á því að skera niður það sem hægast er. Eitthvað sem menn geta verið án, eða að þeir skipta í aðrar og ódýrari vörur. Það eru ekki góð tíðindi fyrir okkur með allan okkar vöruútflutning og ferðaþjónustu.

Erlendis tala menn um að sumu leyti séu menn betur undir samdráttinn búnir nú en áður. Drögum andann djúpt og minnumst þess að stoðirnar eru sterkari núna en fyrir þremur árum, segir einn sérfræðingurinn skv. breska blaðinu Daily Telegraph. Bankarnir eru öflugri, fyrirtækin vel á sig komin og þeir sem versla með fjármálagjörnina skulda minna en áður. Slíkum bjartsýnisröddum munum við taka með varúð; brennd eftir slíkt tal í aðdraganda kreppunnar árið 2008.

Fremur er ástæða til þess að hafa í huga ábendingar eins og þær að hagvöxturinn í þróuðum ríkjum hefur látið á sér standa, skuldir margra þjóða, svo sem evruríkja, eru sligandi og enginn sér fyrir endann á því. Verðlag á ýmsum framleiðsluvörum, svo sem olíu er í hæstu hæðum og fylgir ekki verðþróun niður á við í kreppunni, svo sem vænta hefði mátt. Og loks að þær hækkanir sem urðu á erlendu hlutabréfaverði muni ekki endast nema efnahagslífið takið við sér, eins og birtist okkur þessi dægrin í falli á skuldabréfa og hlutabréfaverði.

Þessar óvissu aðstæður og miklu erfiðleikar, ofan í handónýta ríkisstjórn hér á landi, er þess vegna áhyggjuefni fyrir okkur sem þjóð. Því einmitt við þessar aðstæður þurfum við á alvöru stjórnvöldum að halda. Ekki ríkisstjórn sem dýpkar kreppur, er höfuðsetin  sundurlyndisfjandanum og hefur helst fengið því áorkað  að búa hér til pólitíska óvissu ofan í allt annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband