10.8.2011 | 14:30
Gíslatakan er hafin
Hið fyrirsjáanlega hefur nú komið upp á yfirborðið. Fyrsta gíslatakan er hafin. Hótun Þráins Bertelssonar,varðandi Kvikmyndaskóla Íslands er ljóslifandi dæmi um stöðu ríkisstjórnarinnar. Eins manns stjórnarmeirihluti er vitaskuld ávísun á það sem við höfum nú þegar séð í þessu dæmi. Einstakir þingmenn, geta tekið tiltekin mál í gíslingu og náð fram vilja sínum með hótunum. Sá möguleiki er alltaf til staðar við svona aðstæður.
En í ríkisstjórnarsamstarfi eins og þessu sem nú hjöktir við stjórnvölinn, var það ekki bara möguleiki, heldur fyrirsjánlegt að þannig færi. Sundurlyndisríkisstjórn með eins manns meirihluta verður óhjákvæmilega leiksoppur slíkra aðstæðna. Það var vitaskuld bara tímaspursmál hvenær slíkt gægðist upp úr leyndarhylnum.
Þessi dægrin hverfist líf ríkisstjórnarinnar utanum aurana fyrir Kvikmyndaskólann. Þess vegna lýsir forsætisráðherrann því yfir að fyrsta málið sem ríkisstjórnin muni takast á við verði þessi skóli. Það er sem sagt forgangsverkefnið. Enda um líf og dauða að tefla; altso fyrir ríkisstjórnina.
Ríkisstjórnin gerir það því að forgangsverki sínu að bjarga lífi sínu og mun auðvitað leggja einhverja fjármuni af mörkunum til þess að þurfa ekki að gefa ekki upp öndina. Ólíklegt hlýtur það að minnsta kosti að teljast að ráðherrarnir telji líf stjórnarinnar ekki meira virði en þær milljónir sem það kostar að koma Kvikmyndaskólanum til bjargar.
En þeir verða margir kvikmyndaskólarnir. 22 almennir þingmenn og tíu ráðherrar, hafa þetta vald, kjósi þeir að beita því. Enginn þarf að efast um að þeir muni gera það fleiri. Einhverjir til þess að kreista fram aukna fjármuni í tiltekin verkefni. Aðrir til þess að snúa niður áform í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Og nú sjáum við hversu fjarlægur hann er orðinn sá draumur Jóhönnu Sigurðardóttur að sameina sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið.
Í dag blasir það því við okkur öllum að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna eru alls ekki valdamestir í stjórnarflokkunum. Þar eru nú við völd 32 kóngar og drottningar sem í krafti nýfenginnar stöðu sinnar geta deilt og drottnað, að vild sinni. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnr munu þurfa í vetur að semja við þá marga pólitísku gíslatökumennina í ríkisstjórnarliðinu. Það sem við höfum þegar séð er bara forsmekkurinn.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook