Út með sprokið, Össur!

 

 

Flokksráð VG kaus að álykta um Líbýumál einmitt dagana sem uppreisnarmenn voru að ná undirtökunum í baráttunni við harðstjórann Gaddafí. Það er óumdeilt að lykillinn að sigri  uppreisnarmanna í Líbýu, var atbeini vestrænna ríkja, sem haldið hafa uppi hernaðaraðstoð og loftárásum gegn Gaddafístjórninni.  Ályktun VG er enn ein birtingarmynd þeirrar skoðunar flokksins að ekki megi fara með vopnum gegn harðstjórum, né beita þá yfirhöfuð neinum þrýstingi.  

 Er þó ljóst að án atbeina erlendra ríkja væru Gaddafí og nótar hans enn við völd. Þeir hefðu í krafti hernaðarmáttar síns brotið niður uppreisn almennings með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa Líbýu.

 Nú er þess krafist að fram fari sérstök rannsókn á þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja við uppgjör almennings í Líbýu gegn alræmdum harðstjóra sem hefur haldið þjóð sinni í heljargreipum í áratugi og ber ábyrgð á hryðjuverkum, meðal annars á Vesturlöndum.

 Þetta er auðvitað líka ótrúlegt í ljósi þess að Vinstri grænir eiga aðild að ríkisstjórn sem var í liði með öðrum NATÓ þjóðum í baráttunni gegn harðstjóranum. Flokkurinn getur því ekki þvegið hendur sínar af málinu.

 Halda mætti að flokkurinn sem mætti um síðustu  helgi til þess að álykta væri ekki aðili að ríkisstjórnarsamstarfinu!

 Ályktunin um síðustu helgi var augljóslega eins konar friðþæging gagnvart öflum sem undu því illa að ríkisstjórn sem flokkurinn á aðild að, hefði kosið að fara sömu leið og ríkisstjórnir alla NATÓ ríkjanna, svo sem Noregs þar sem systurflokkur VG er í ríkisstjórn.

 Viðbrögð Össurar Skarðhéðinssonar utanríkisráðherra eru athyglisverð. Hann  sagði í útvarpsfréttum í gær:  „Ég er ekkert hræddur við svona rannsóknarnefnd og ef að félagar mínir í VG hafa sérstakan áhuga á að leggja fram rannsóknarnefnd til að skoða mínar gerðir, þá segi ég bara: Verði þeim að góðu. Það hafa aðrir en ég ástæðu til að óttast það."

 Þetta er athyglisvert. En hvað á utanríkisráðherra við? Hverjir hafa ástæðu til að óttast slíka rannsókn? Eru það kannski félagar hans í VG? Hér duga engar óljósar pillur, né að tala eins og véfréttin frá Delfí. Utanríkisráðherra þarf að segja okkur hvað hann eigi við. – Út með sprokið, Össur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband