Nú á minn herra öngvan vin

Það er auðvitað bara sprenghlægilegt þegar Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar Alþingis og Ólína Þorvarðardóttir varaformaður bjóðast til þess að sjá um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna, en eins og allir vita hefur markmið slíkrar vinnu jafnan verið að stuðla að aukinni sátt. Lilja Rafney og Ólína, að vinna að aukinni sátt!! – Áttu annan?

Og svo er þetta þeim mun athyglisverðara að þetta kostaboð er sett fram tveimur sólarhringum áður en umboð núverandi nefndar rennur út og ný nefnd tekur yfir hlutverk sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar skv. breyttum þingsköpum Alþingis.

En nú má segja um sjávarútvegsfrumvarpið, eins og Jón Grunnvíkingur er látinn segja í Íslandsklukku Halldórs Laxness. „Minn herra á öngvan vin“. Þær Lilja Rafney og Ólína voru meðal höfunda frumvarpsins, sátu í nefnd þingmanna ásamt fjórum ráðherrum við undirbúning þess og voru í forsvari málsins á Alþingi í vor. Öllum gagnrýnisatriðum sem að frumvarpinu var beint,  hefur verið svarað framundir þetta meðómálefnalegum hætti, með því að reyna að gera gagnrýnendurna tortryggilega, segja þá vinna í þágu annarlegra hagsmuna og og líkja þeim jafnvel við dópista, eins og formaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar gerði gagnvart málefnalegri gagnrýni Landsbankans, af mikilli smekkvísi.

En nú vaknar spurningin?

Hvers vegna í dauðanum var svo hraklegt frumvarp lagt fram? Frumvarp sem átti að marka nýja heildarlöggjöf um okkar mikilvægustu atvinnugrein, sjávarútveginn. Munum að forsætisráðherra –var vel að merkja einn þeirra ráðherra sem með beinum hætti undirbjó hið illa þokkaða frumvarp. Hún krafðist þess í vor að málið yrði afgreitt fyrir þinglok og beitti sinni alþekktu ýtni til hins ítrasta til þess.

Nú er öllum ljóst að málið er ekki á vetur setjandi. Enginn mælir því bót. Ekki einu sinni höfundarnir. Það á öngvan vin.

Og svo er það hinn kapítulinn. Formaður og varaformaður fagnefnda, sem starfa í umboði flokka sinna í þeim embættum, skrifa harkalega gagnrýni á eigið frumvarp, sem þær höfðu þó unnið að og samþykkt að leggja fram. Þetta er sýnilega gert án þess að fyrir liggi nokkur stuðningur við sjónarmið þeirra.

Björn Valur Gíslason nýr þingflokksformaður VG og nefndarmaður i sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd, sem gjörþekkir sjávarútveginn, skrifar eigið álit og tekur undir með okkur Jóni Gunnarssyni, fulltrúm Sjálfstæðisflokksins í nefndinni og Sigurði Inga Jóhannssyni fulltrúa. Framsóknarflokksins í nefndinni að frumvarpið geti ekki orðið grundvöllur endurskoðunar fiskveiðilöggjafarinnar.

Og athygli vekur síðan að tveir fulltrúar Samfylkingarinnar af þremur í sjávarútvegs og landbúnaðarnefndinni standa ekki að álitinu frá formanni og varaformanni. Þetta er greinilega prívat útspil þeirra tveggja, varaformanns og formanns og lýsir pólitískri einangrun þeirra í þessu máli innan flokka sinna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband