11.10.2011 | 15:59
Stendur öllum á sama?
Ákveðið, örugglega, en án þess að það hafi kallað fram mikil viðbrögð er verið að breyta fjármálamarkaðnum á Íslandi. Á einu ári hefur þjónustustöðvum sparisjóða fækkað um helming. Þær voru 47 á árinu 2010, en eru núna orðnar 23. Og þróunin heldur áfram. Tveir sparisjóðir eru í söluferli og enginn veit með vissu hvort þeir verði sparisjóðir eftir að það er afstaðið.
Þetta er mikið umhugsunaratriði. Hér er sem sagt að verða til markviss stefna, sem felur í sér að sparisjóðakerfið er ekki orðið svipur hjá sjón. Þetta gerist nær umræðulaust. Ég hef að vísu tekið málið upp á Alþingi og reynt þannig að skapa um það umræðu. Sú umræða hefur þó nær engin orðið. Þessi breyting á samfélaginu og í raun samkeppnisumhverfi fjármálastofnana líður hjá að mestu umræðulaust.
Er það þannig sem við viljum að slík stefnumörkun gerist? Án umræðu, eða úttektar á afleiðingunum?
Þetta gerist á vakt núverandi ríkisstjórnar. Hún leggur yfir það blessun með aðgerðum og aðgerðarleysi. Þeir sem fyrr meir börðu sér á brjóst og hétu því að standa vörð um sparisjóðakerfið, hafast nú ekkert að, þó þeir hafi til þess allar aðstæður vegna stöðu sinnar.
Ég tók þetta upp í óundirbúnum fyrirspurnum við Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Ekki vegna þess að málið væri á fagsviði ráðherrans. Það er þetta mál ekki. En vegna þess að hann hafði sig mjög í frammi hér fyrr meir þegar málefni sparisjóðanna voru rædd. Hafði meðal annars forgöngu um að leggja fram frumvarp, sem var ætlað að „standa vörð um grunnstoðir sparisjóðanna“, eins og sagði í greinargerð þess.
Málið er hvað sparisjóðina varðar alvarlegt. Það sjá allir í hvað stefnir.
1. Sparisjóðum fækkar um helming á einu ári og þróunin heldur áfram.
2. Á Vestfjörðum hefur þjónustustöðum sparisjóða fækkað úr 12 í 4.
3. Enginn sparisjóður er starfandi á vestan verðum Vestfjörðum, utan Bolungarvíkur og Suðureyrar.
4. Enginn sparisjóður er á Vesturlandi.
5. Enginn sparisjóður er á höfuðborgarsvæðinu, þar voru amk. 6 í fyrra.
6. Enginn sparisjóður er á Reykjanesi, þar voru þjónustustöðvarnar 6 í fyrra.
7. Sparisjóður eru nú starfandi á landssvæðum þar sem einvörðungu búa um 10% þjóðarinnar.
Fram skal tekið að þar sem ég þekki til og best veit, hefur Landsbankinn, sem yfirtekið hefur stórt net sparisjóða, staðið sig býsna vel og ekki almennt lokað útibúum. En það er ekki það sem þetta mál snýst um.
Það snýst um að við erum að gera fjármálamarkaðinn fátækari með þessu, ýtum mögulega undir fákeppni og hverfum frá þeirri staðbundnu fjármálaþjónustu sem sparisjóðirnir hafa verið úti um byggðir landsins.
Þetta gerist á vakt núverandi ríkisstjórnar og án undangenginnar umræðu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook