Armslengdin við mannaráðningar

  

 

Umræður um ráðningu Páls Magnússonar í stöðu forstjóra Bankasýlu ríkisins hafa orðið mjög einkennilegar, þó ekki verði sagt að þær komi á óvart. Páll á pólitíska fortíð og það nægir greinilega til þess að gera ráðningu hans tortryggilega.

En einkennilegar eru þessar umræður engu að síður, í ljósi þess hvernig stofnað var til stofnunarinnar, Bankasýslu ríkisins.

Það kom mjög skýrt fram af ábyrgðarmönnum þessa máls, þegar frumvarpið um Bankasýsluna var lagt fram, að ætlunin væri að hún starfaði á faglegum forsendum, án beinnar íhlutunar stjórnmálamanna og færi með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er athyglisvert að skoða umræðuna sem fór fram um þessa stofnun, í ljósi þeirrar umræðu sem nú geisar um ráðningu nýs forstjóra.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, sem mælti fyrir málinu og formaður þingnefndarinnar sem fjallaði um málið, lögðu einmitt mikla áherslu á þetta. Þau bentu á það fyrirkomulag sem væri við ráðningar og  skipan í stjórnir þeirra fjármálastofnana sem Bankasýslan færi með. Áherslan var skýr af þeirra hálfu. Hún var sú að allt ætti að vera faglegt og án beinnar aðkomu stjórnmálamanna.

Fjármálaráðherra hafði uppi heitingar og brýningar, þegar það fyrirkomulag  bar á góma sem frumvarpið gerði ráð fyrir í þessum efnum. Það leyndi sér ekki að hann taldi brotið í blað með því fyrirkomulagi sem væri verið að innleiða.

Skýrt kom þetta meðal annars fram í andsvari fjármálaráðherra við Guðmund Steingrímsson alþingismann, 22.júní árið 2009 í fyrstu umræðu málsins. Þar sagði ráðherrann orðrétt: „Ég held að hv. þingmaður hljóti að sjá að það sem hér er verið að reyna að gera er akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram“

Þessi orð fjármálaráðherra féllu meðal annars í framhaldi af því að hann hafði gagnrýnt fyrra fyrirkomulag um skipan til dæmis í bankaráð, sem hann taldi að ekki hefði gefist vel.

Þegar allt þetta er skoðað vakna óhjákvæmilega upp spurningar um hvort armlengdin á milli stjórnmálanna og framkvæmdavaldsins hafi eitthvað styst, hvort þetta tal stjórnarliða í júnílok 2009 eigi ekki við nú á haustdögum 2011? Og spyrja má hvort þeir stjórnmálamenn sem nú vilja hafa með beinum hætti áhrif á forstjóraráðninguna, telji það hafa verið mistök að búa þetta fyrirkomulag til, úr því að það kemur í veg fyrir beinan íhlutarrétt þeirra? Og sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á beinskeittum málflutningi Össuar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í þessu máli nú í morgunsárið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband