30.10.2011 | 21:41
Nú lofa allir neyðarlögin
Hin mikilvæga niðurstaða sem fékkst með dómi Hæstaréttar á föstudaginn um neyðarlögin undirstrikar þýðingu þessarar lagasetningar. Með henni var dreginn varnarhringur um íslenska bankakerfið og því lýst yfir að við bærum ekki sem þjóð ábyrgð á fjármálagerningum einkabankanna, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings. Þær fjárhagslegu skuldbindingar sem þessir bankar tókust á hendur voru margfaldar þjóðartekjur okkar og því auðvitað algjörlega ofviða okkur. Þær voru afrakstur viðskipta þessara banka við lánadrottna sína. Þau viðskipti voru á ábyrgð þeirra; lántakans og lánadrottinsins. Ekki íslenska ríkisins né þar með íslenskra skattborgara
Fróðlegt var að heyra þau viðhorf aðstoðarforstjóra AGS í sjónvarpsfréttum í kvöld sem sagði eina orsök hrunsins í efnahgskerfum heimsins vera þá að bankar hafi vaxið þjóðfélögunum yfir höfuð. Það gerðist hér og það gerðist um víða veröld, þó það síðar nefnda virðist fara fram hjá ýmsum sem um þessi mál tjá sig hér á landi.
Eftiráspekingarnir,- en af þeim er mikið framboð á Íslandi svo sem kunnugt er, - halda því fram að við höfum engan annan kost átt en þann að fara þá leið sem neyðarlögin mörkuðu. En var það þannig? Blasti þessi leið við öllum á haustdögum 2008? Ég fullyrði að svo var ekki. Ekki þarf annað en að rifja upp umræðuna sem fram fór þetta ár. Taktföst, þung og ákveðin umræða knúin áfram af áhrifamiklum álitsgjöfum og sérfræðingum sem báru þáverandi stjórnvöld þungum sökum fyrir að skilja ekki nægjanlega vel þarfir nútíma alþjóðlegs bankakerfis. Krafan var stíf og einbeitt. Stjórnvöld eiga að vera útbærari á fjármuni til þess að aðstoða bankana. Taka sem sagt meiri ábyrgð á rekstri þeirra.
Á dögunum rakst ég fyrir tilviljun eintak af Frjálsri verslun frá fyrri hluta árs 2008 þar sem rætt var við þá sem hvað hæst flugu á þeim tíma. Boðskapurinn var skýr. Fjárhagsstaða bankanna er góð, en lausafjárstaðan lakari. Það má lækna án áhættu með því að ríkið útvegi bönkunum meira fé.
Því fer þess vegna víðs fjarri að sú stefna sem tekin var og kristallaðist í neyðarlögunum hafi verið við blasandi. Langt frá því. En neyðarlögin voru hins vegar rétt ráðstöfun. Það sjá menn núna. Einnig núverandi fjármálaráðherra sem treysti sér ekki til þess að styðja þau á sínum tíma en talar núna eins og hann hafi verið aðalmaðurinn við samningu þeirra.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook