23.11.2011 | 09:22
Svo óskaplega ópólitískt
Véfréttir eru sagðar af gerð nýrrar samgönguáætlunar í Ríkisútvarpinu, sem núna er farið að kalla RÚV. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir nýja áætlun marka tímamót hvað vinnubrögð áhrærir. Það mun koma í ljós og einnig mun koma í ljós í hvaða átt hin meintu nýju vinnubrögð leiða okkur.
Það virðist útgangspunkturinn, samkvæmt fréttinni, að stjórnmálamenn ( í fleirtölu ) komi sem minnst að undirbúningi málsins. Nema auðvitað stjórnmálamaðurinn Ögmundur Jónasson – í eintölu. Og eins og málin verða skilin af frásögn útvarpsins er þá undirbúningurinn eingöngu í höndum embættismanna, sem enginn kaus. Þeir sækja bara vald sitt til og umboð til eins stjórnmálamanns, þess sem skipaði þá; innanríkisráðherrans.
Nú gilda sérstök lög um undirbúning samgönguáætlunar. Þar er gert ráð fyrir að sérstakt samgönguráð annist undirbúninginn. Um það segir í lögum: „Samgönguráð undirbýr og semur tillögu að samgönguáætlun og leggur fyrir [ráðherra]2) til endanlegrar afgreiðslu og ákvörðunar.“ Engin ástæða er til að efast um að farið hafi verið að lögum og Samgönguráðið undir forystu hins ópólitíska formanns, Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar hafi undirbúið samgönguáætlunina.
En síðan tekur vinna við í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þingmenn þeirra munu bera ábyrgð á áætluninni að lokum. Ráðherrann þarf að tryggja sér stuðning þeirra til þess að geta farið með málið inn í þingið, til endanlegrar afgreiðslu. Sjónarhóll þingmannanna er misjafn. Fer meðal annars eftir búsetu þeirra og pólitískum áherslum.
En þetta verður samt alveg örugglega allt saman óskaplega faglegt og ópólitískt. Ekki nokkur hætta á öðru.
Við hin bíðum svo bara þess tíma þar til við fáum að berja afurðina augum. Hina ópólitísku samgönguáætlun þeirra Ögmundar Jónassonar ráðherra úr flokki Vinstri grænna og Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa úr Samfylkingunni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook