Ætla þau þá að reka Ögmund líka?

 

Árásirnar á Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra eiga sér bara eina rót. Andstöðu ráðherrans við ESB. Það hefur Samfylkingin ekki þolað og hefur nú ákveðið að stund hefnarinnar væri runnin upp. Þetta hefur lengi staðið til, en ekki hefur verið talin nægjanlega góð staða til þess að láta höggið ríða. Nú töldu þeir sig finna tylliástæðu og þá er ekki hikað lengur.

 Innan VG eru miklar væringjar og flokkurinn klofinn ofan í rót. Menn tala óhikað um þingflokk Steingríms J. og þingflokk Ögmundar og félaga. Þar eru styrkleikahlutföllin 9 þingmenn á móti 3. Það blasti auðvitað við að ekki var hægt að reka Jón Bjarnason úr ráðherrastóli vegna andstöðu hans við ESB ferlið. Afstaða hans var í samræmi við hina formlegu afstöðu flokksins í málinu. Flokkurinn hefði því ekki þolað það að honum yrði bolað frá fyrir þær „sakir“ að standa á meiningu flokksins í máli sem forystan hefur virt að vettugi, eins og allir vita.

Uppákoman í sjávarútvegsmálunum um helgina var því eins og himnasending. Þar töldu menn sig finna hillu til að tylla sér á, í því skyni að skapa sér sóknarfæri gegn sitjandi sjávarútvegs - og landbúnaðarráðherra.

Fyrst var búin til aðferð við að niðurlægja sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Veigamesta verkefni ráðuneytis hans, fiskveiðistjórnarmálið var tekið af honum og sett í hendur velferðarráðherra og menntamálaráðherra. Þó stjórnskipunarlegt forræði sé hjá sjávarútvegsráðherra er hið eiginlega vald á þessu máli komið í hendur Guðbjarts Hannessonar og Katrínar Jakobsdóttur. Aðkoma Jóns Bjarnasonar á síðan að vera að bera í þau gögn, pappíra og talnafróðleik sem við á og þau óska eftir. Enda eru þau verkstjórarnir, eins og Steingrímur J. Sigfússon formaður VG orðaði það svo smekklega á Alþingi í gær.

Katrín og Guðbjartur eru sem sé húsbændurnir og Jón Bjarnason er í hlutverki hjúanna á þessu mikla höfuðbóli

Þetta heitir að strá salti í sárin og það leyndi sér ekki að ekkert verður til sparað í þeim saltburði. Allt hefur þetta þann tilgang að veikja stöðu sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Honum er nú borið á brýn að hafa ekki haft nægjanlegt samráð við ríkisstjórnina við undirbúning fiskveiðistjórnarfrumvarpsins sem hann vildi leggja fram. En er þetta trúverðugt? Var þetta ekki sagt um Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í máli Kínverjans Huang Nubo? Ekki var Ögmundur rekinn. Á hann kannski að verða næstur í röðinni?

Það blasir við hverjum manni að þetta fiskveiðistjórnarmál er bara ómerkilegt yfirvarp. Tilraun til spuna og blekkinga til þessað koma á höggi á Jón Bjarnason. Ástæðan er önnur. Hún heitir umsóknin um ESB aðild, sem fyrst og síðast vakir yfir og allt um kring í öllu því sem knýr Samfylkinguna áfram í þessu stjórnarsamstarfi.

Um þessi mál fjallaði ég í ræðu á Alþingi í dag, sjá hér og einnig hér

Einnig ræddi ég þessi mál í Ríkisútvarpinu í morgun, sjá hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband