31.12.2011 | 11:12
Veika ríkisstjórnin er orðin fárveik
Hin veika ríkisstjórn er orðin fárveik eftir atburði gærdagsins. Henni veður haldið í öndunarvél þar til yfir lýkur og við súrefniskútana standa vaktina fulltrúar Hreyfingarinnar og svo Guðmundur Steingrímsson, fái forystumenn ríkisstjórnarinnar einhverju um það ráðið.
Staða Steingríms J. Sigfússonar formanns VG verður mjög athyglisverð. Hann verður ráðherra atvinnumálanna. Það verður hans hlutskipti að móta nýjar tillögur um fiskveiðimálin og hann fær í sínar hendur alræðisvald um tillögugerð varðandi rammaáætlun um uppbyggingu orkumannvirkja. Það mál var áður í höndum ráðherra beggja flokkanna, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Nú mun VG ráða þeim málum. Það má því bóka að fátt verður um uppbyggingu á þeim sviðum á næstunni.
Báðir stjórnarflokkarnir koma laskaðir og lemstraðir frá ósköpunum. Innan þeirra styrkjast þau öfl sem eru orðin yfir sig þreytt á stjórnarsamstarfinu. Þau hafa nú fengið enn rýmra spil og geta látið betur til taka; óbundin af ráðherrastöðum
Í Samfylkingunni eflast þeir nú sem hafa fyrir löngu fengið sig fullsadda á stöðnunarstefnunni í atvinnumálunum. Þeir geta, - hafi þeir nennu, dug eða áræði til þess - látið fyrir sér finna svo um munar. Trúverðugleiki þeirra mun ráðast af því hvernig þeir nýta sér þessi tækifæri. Í vor er svo ætlunin að ryðja Jóhönnu Sigurðardóttur úr formannsstóli. Hún er litin sömu augum og krambúðarmenn horfa á úr sér gengnar vörur sínar; hún er runnin út á tíma. Í vor getur hún á Landsfundi flokksins flutt ræðu sem endar á orðunum: Minn tími er liðinn. Enda er forysta flokksins orðin svo bágborin að líf sitt átti hún undir náð og miskunn hins brottrekna ráðherra, Árna Páls Árnasonar.
Í VG bíða menn þess að ná fram hefndum vegna þess sem þeir telja yfirgang formanns flokksins. Brotthvarf Jóns Bjarnasonar er í hugum þeirra táknræn birtingarmynd þess sem þeir fyrirlíta mest í fari forystu flokksins. Ályktun stjórnarmanna flokksins frá því í gær er fyrirboði þess sem koma skal. Sú staðreynd að fyrrum ráðherra flokksins vilji ekki lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina er auðvitað stórtíðindi, sem fellur þó í skuggan fyrsta kastið í þeim darraðardansi sem stiginn er. Því verður staða Steingríms J. skrýtin. Hann hefur safnað til sín miklum völdum í ríkisstjórninni, en verður í vaxandi vanda með flokkinn sinn. Var þó ekki á bætandi!
Verst við þetta allt saman er auðvitað það að ríkisstjórnin er álíka líkleg til jákvæðra stórræða við landstjórnina og lömuð önd ( lame duck, eins og sagt er á útlendum málum). Hagsmunir þjóðarinnar munu skaðast. En slík smá mál eru vitaskuld aukaatriði í þeirri pólitísku lönguvitleysu, sem spiluð er þessi dægrin við ríkisstjórnarborðið. Aðalatriðið er sem fyrr að sitja slímusetur og njóta valdanna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook