Nú er rammaáætlunin í uppnámi – eins og flest annað

  

 

Vandræðagangur og vesen ríkisstjórnarflokkanna er fyrir löngu hætt að vekja athygli. Því er í rauninni að verða öfugt farið. Fréttnæmt er nú orðið þegar ríkisstjórnin kemst nokkurn veginn vandræðalaust í gegn um einn dag.

Blönduvirkjun

Þess vegna mun það ekki vekja neina sérstaka athygli að allt er í hönk hjá ríkisstjórninni varðandi hina svo kölluðu rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda, sem sagt er frá í fjölmiðlum í dag. Í mesta lagi munu menn yppta öxlum og segja:  Jæja, þetta er þá vandræðamál dagsins - og ræða svo eitthvað annað.

En skoðum aðeins.

Rammaáætlunin er byggð á gríðarlega mikilli vinnu sem fram fór á vegum sérfræðinga, en með pólitískri aðkomu. Þessari vinnu lauk sl. haust og afraksturinn  birtist í gríðarlega mikilli skýrslu sem  nálgast má á heimasíðu Iðnaðarráðuneytisins. Allt var þetta kynnt með lúðrablæstri og söng, rætt um fagleg vinnubrögð, gegnsæi og það allt saman. Kallað var eftir athugasemdum og málið sett í hendurnar á iðnaðarráðherranum og umhverfisráðherranum.

Síðan eru liðnir margir mánuðir.

Ég spurðist fyrir um málið á Alþingi fyrir einni viku. Umhverfisráðherrann varð til andsvara. Tilefni þess að ég spurði var það að í nýrri þingmálaskrá forsætisráðherra var það kynnt með kurt og pí að þinglegt plagg með tillögu að rammaáætlun ætti að líta dagsins ljós 30. janúar, sem var sem sagt í gær. Þessa tilkynningu sendi forsætisráðherra frá sér 18. janúar, eða 12 dögum áður en dreifa átti plagginu á borð þingmanna.

Umhverfisráðherrann bar sig vel og sagði plaggið væntanlegt um þetta leyti. Þetta var fyrir viku.

Vandræðagangurinn sem nú er orðinn opinber í ríkisstjórnarliðinu stafar af því að nú er verið að mixa nýja áætlun. Kippa út virkjunarkostum og koma í veg fyrir að fram nái að ganga hið faglega mat rammáætlunar. Það eru hin pólitísku afskipti sem lita munu allt þetta mál, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsignar og svardaga um annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband