2.2.2012 | 08:30
Er ESB umsóknin þá bara könnunarleiðangur?
Það var bráðfyndið á Alþingi í gær að heyra hinar órímuðu öfugmælavísur af vörum stjórnarliða um meintan árangur ríkisstjórnarinnar. Þingmenn Samfylkingarinnar fóru í stórum torfum upp í ræðustól Alþingis til þess að hlaða ríkisstjórnina lofi. Athygli vakti að enginn þingmaður VG ómakaði sig til þess að kyrja lofsöngvana á Alþingi í morgun.
En tónninn hafði svo sem verið sleginn í morgun. Þá birtu formenn stjórnarflokkanna furðulega grein, í tilefni af þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Allir vita að sú ríkisstjórn er nú komin á grafarbakkann, svo að segja má að grein formannanna hafi verið eins konar snemmbúin minningargrein um ríkisstjórn sem bara á eftir að gefa upp öndina. Eins og stundum gerist við slíkar aðstæður var viðfangsefnið hlaðið miklu lofi, sjálfhælni, sem vænta mátti af landfeðrunum sem ekki eru í nokkru jarðsambandi. Enda fílabeinsturn þeirra vel einangraður.
Makalaust var svo að lesa eftirfarandi í grein þeirra flokksformannanna í Fréttablaðinu í gær: Samkvæmt ákvörðun meirihluta Alþingis er nú verið að kanna til fullnustu kosti og galla aðildar.
Það er nefnilega það. Ganga þá aðildarviðræðurnar við ESB sem Samfylkingin tróð ofan í VG þá út á það? Að kanna málin, kíkja í pakkann? Er þetta þá bara eftir allt saman eins konar könnunarleiðangur, þar sem Össur Skarphéðinsson er leiðangursstjóri.
Þetta er þvílíkt bull og rugl að það tekur auðvitað ekki nokkru tali.
Vitaskuld er ekki verið að kanna kosti og galla aðildar. Það er verið að freista inngöngu í ESB í samræmi við það sem stjórnarflokkarnir ákváðu og bera alla ábyrgð á. Um þetta snýst málið og það er auðvitað ömurleg og lágkúruleg blekking sem formenn flokkanna, ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon bera á borð fyrir okkur í þessari sjálfbirgingslegu blaðagrein.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook