15.2.2012 | 09:29
Drulluslettur og dylgjufréttamennska
Eitt ómerkilegasta bragðið í opinberum umræðum er að bera andstæðinginn sökum og neyða hann til þess að afneita þeim. Með svona lymskubrögðum næst fram tvennt: Athygli er dregin frá slökum málstað þess sem ásakanirnar ber upp og andstæðingurinn situr uppi með orðasveiminn um að kannski hafi hann gert eitthvað misjafnt.
Þetta er gamalt og þekkt bragð, þykir smánarlegt, en er alltaf jafn vinsælt hjá þeim sem víla ekki fyrir sér ómerkilegan málflutning.
McCarthyisminn í Bandaríkjunum upp úr miðri síðustu öld er til dæmis talið sígilt dæmi um þetta; fáir bera blak af verstu afbrigðum hans, en samt er þeim enn beitt í ómerkilegri umræðu, eins og dæmin sanna.
Við sjáum því miður í þjóðmálaumræðunni dæmin stór og smá og árásirnar á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins eru gleggsta dæmið um það upp á síðkastið í íslenskri þjóðmálaumræðu. Dylgjufréttamennska, eins og Eiður Guðnason hefur nefnt þetta fyrirbrigði.
Í viðtali við Kastljós Sjónvarpsins í gærkveldi sýndi Bjarni Benediktsson rækilega fram á, rétt einu sinni, hve fráleitar þær dylgjur eru sem hann hefur mátt sæta. Ekki bara síðustu dægrin, sem þó hafa verið einkar mögnuð, heldur vikum mánuðum og misserum saman. Þar hefur tilgangurinn átt að helga meðalið.
Á Eyjunni er fjallað um þetta viðtal.
Drullusletturnar munu verða til staðar, en þær skaða auðvitað ekki þann sem getur sýnt fram á sakleysi sitt, gagnvart þeim ávirðingum sem á hann eru bornar.
Það hefur verið látið að því liggja að Bjarni hafi falsað pappíra og í gær spurði Helgi Seljan stjórnandi Kastljóssins hvort ekki væri best fyrir Bjarna að á því máli yrði gerð rannsókn. Bjarni benti á hið augljósa. Sérstakur saksóknari hefði staðið fyrir opinberri rannsókn á þessu máli og enginn verið ákærður fyrir skjalafals.
Og eins og segir í óbeinni frásögn mbl.is um þetta mál: „Bjarni lagði áherslu á að það sem saksóknari hefði séð athugavert í þessu máli eftir að hafa rannsakað það var hlutur bankastarfsmanna í málinu. Þar hefði hann ekki átt neina aðkomu. „Eina aðkoma mín að þessu máli er að útvega bankanum veð vegna lánsins. Að sjálfsögðu geng ég út frá því að bankinn sé að veita þetta lán á grundvelli gildandi laga og reglna sem í bankanum voru á þessum tíma,“
Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður kom einnig að þessu máli í fjölmiðlum í gær og sýndi fram á m,eð rökum hversu fráleitar ásakanirnar eru, eins og HÉR sést.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook