Ríkisstjórnin hlaut rassskellingu

 

Þegar menn fara með himinskautum í ríkisstjórninni og segjast fagna niðurstöðu Hæstaréttar í nýjum  gengislánadómi eru það tóm látalæti. Sem sést auðvitað af  því að Hæstiréttur segir að tiltekin ákvæði laganna hafi brotið í bága við sjálfa Stjórnarskrána, eins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins benti á í ræðu á Alþingi sl. fimmtudag. Dómurinn segir ekki að stjórnarskráin hafi verið þverbrotin, en gangi á svig við hana í veigamiklu atriði . Það setur því að manni kjánahroll að sjá ráðherra og þingmenn stjórnarliðsins gera sér upp fögnuð yfir nýja dómnum.

Með fullan poka af gengistryggðum lánum 

 Þessi dómur er nefnilega augljós áfellisdómur yfir löggjöf ríkisstjórnarinnar; rassskelling í rauninni. Það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnarliðið að láta sem ekkert sé, þegar Hæstiréttur er búinn að kveða upp úr um að löggjöfin hafi ekki verið að öllu í samræmi við stjórnarskrána og að hún hafi falið í sér ranga aðferð við vaxtaútreikning, svo nemi kannski tugum milljarða króna. Þetta er auðvitað enn eitt klúðrið, enn ein mistökin, enn eitt hneykslið úr ranni þessarar lánlausu, gatslitnu og niðurlægðu ríkisstjórnar.

Framhjá þessu er ekki hægt að skauta með mælgi og blaðri. Þessi lagasetning fól í sér stjórnarskrárbrot. Því er ekki hægt að taka af léttúð.  Lagasetningin var gerð á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, flutt sem stjórnarfrumvarp, mælt fyrir því af efnahags og viðskiptaráðherranum  og lögin voru samþykkt með atkvæðum stjórnarliða. Þeir bera því beina ábyrgð á stjórnarskrárbrotinu.

Nú erum við komin í átt að byrjunarreit að nýju. Enginn veit í rauninni um afleiðingar nýja dómsins. Enginn veit hver staða almennings og atvinnulífs verður á eftir. Allir vita hins vegar að framundan er runa dómsmála; allt eftir því hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða.

Eftirlitsstofnanir okkar kunna ekki svör við því hver kostnaðurinn verði fyrir fjármálastofnanirnar og þar með hver ávinningurinn verði fyrir skuldara. Menn greinir meira að segja á um hvort þetta nái til fyrirtækja. Ummæli formanns efnahags og viðskiptanefndar Alþingis verða ekki skilin öðruvísi en svo að dómurinn nái ekki nema til hluta þeirra sem tóku hin gengisbundnu lán. Hann fagnar því að dómurinn feli í sér hvatningu til skilvísi og verða hans orð ekki skilin öðruvísi en svo að þau nái ekki til þeirra sem ekki greiddu af lánum sínum; gátu það kannski alls ekki. Þeir eigi að sitja í súpunni og enginn hefur svarað því hvort þetta taki þá til þeirra þúsunda sem voru með lánin sín fryst.

Fyrstu viðbrögðin benda sem sé til að ætlunin sé að túlka dóminn þröngt.

En á sama tíma hafa komið upp alls konar aðrar spurningar. Ekki síst varðandi verðtryggðu lánin. Þar hafa stjórnarliðar ekki dregið af sér. Nú er búið að vekja upp væntingar þeirra sem slík lán hafa tekið. Og eins og stundum er sagt. Þegar búið er að segja A er óhjákvæmilegt að segja B. Við hljótum að vænta þess að stjórnvöld skýri þessa afstöðu sína og það fyrr en síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband