20.2.2012 | 22:43
Þetta er ekkert grín
Gengislánadómurinn nýi er mikið alvörumál. En þrátt fyrir það er því ekki að neita að viðbrögð forystumanna stjórnarliðsins við dómnum hafa verið svo mikið undrunarefni að þau hafa beinlínis framkallað hlátur; skellihlátur. Vantar þó ekki neitt upp á alvöru málsins.
Það kom meðal annars fram í því að bæði efnahags og viðskiptaráðherra og formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis sögðu eftir að dómurinn féll, að með honum væri óvissu eytt!!
Það er nefnilega það.
Óvissunni eytt!
Staðan hefur þvert á móti orðið ennþá óljósari en nokkru sinni áður. Hvað hafa menn nefnt? 70 til 80 þúsund lán sem eru nú í hífandi óvissu. Enginn veit hvernig eigi að bregðast við. Eftirlitsstofnanirnar standa á gati, fjármálafyrirtækin vita ekki sitt rjúkandi ráð og meirihluti Alþingis situr uppi með það að hafa samþykkt lög að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem ekki standast Stjórnarskrána.
Já óvissunni hefur sem sagt verið eytt!
Og nú er það nýjasta nýtt. Helstu talsmenn stjórnarmeirihlutans telja það helst til ráða að kalla eftir fleiri málaferlum, fleiri lögsóknum, fleiri gengislánadómum. Og til hvers? Jú til þess að eyða óvissunni.
Var ekki þessi síðasti dómur til þess fallinn að eyða óvissu? Það var sagt fyrir helgi. En núna hefur dómurinn, - að mati hinna sömu manna skapað svo mikla óvissu, að fleiri málaferli þarf til þess að skýra málið.
Ein stétt manna gleðst kannski yfir þessari stöðu. Lögfræðingarnir, þeir fá nóg að gera.
En hverjir skyldu nú vera orðnir fórnarlömb þessarar óvissu sem lagaumhverfi ríkisstjórnarflokkanna hefur skapað?
Það eru í fyrsta lagi tugir þúsunda einstaklinga, sem ekki vita hver staða þeirra er.
Í annan stað fyrirtækin, sem ekki hafa fengið úr því skorið hvort dómurinn eigi við þau. Eru í hífandi óvissu.
Og loks eru það fjármálafyrirtækin, sem ekki vita hversu mörgum milljörðum og tugmilljörðum fátækari þau eru. Það er með öðrum orðum fullkomin óvissa um efnahagsreikninga þeirra; fjármálafyrirtækja sem eiga allt sitt undir því að geta með vissu vísað til trúverðugra upplýsinga um eigin stöðu.
Staðan hefur sennilega aldrei verið óljósari en nú og svarið er bara að henni verði ekki eytt fyrr en seint og um síðir, einhvern tíma, einhverjum tugum málaferla síðar.
Dómstólaleiðin það er hin norræna velferð, það er skjaldborgin um heimilin.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook