22.2.2012 | 09:22
Alvarlega vegið að innanlandsfluginu
"Mjög alvarlega staða er nú komin upp í innanlandsflugi okkar. Óvissa um Reykjavíkurflugvöll og skattahækkanir þær sem hafa á dunið á þessari mikilvægu starfsemi hafa þegar tekið mikinn toll og alls ekki útséð með framhaldið. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þá um 800 þúsund farþega sem notað hafa innanlandsflugið á síðustu árum og getur verið hreint reiðarslag fyrir þær byggðir sem reiða sig á þennan samgöngumáta."
Þannig hefjast greinar sem ég birti á feyki.is þann 17. febrúar sl. og bb.is þann 20 febrúar og lesa á má í heild sinni hér á síðunni. Greinarnar eru skrifaðar í framhaldi af því að ég tók þessi mál upp á Alþingi í sérstakri umræðu þann 15. febrúar.
Í greininni tek ég raunhæft dæmi af ungum námsmanni af landsbyggðinni:
"Setjum okkur í spor ungs námsmanns sem hefur haldið til háskólanáms frá Egilsstöðum eða Ísafirði til Reykjavíkur. Sá hinn sami vill kannski dvelja heima hjá sér um jól eða í lengri námsleyfum og lætur sér jafnvel detta í hug að heimsækja foreldra og ættingja einu sinni eða tvisvar yfir veturinn. Slíkt verður honum óviðráðanlegt, nema eiga einhverja þá að sem hafa efni á að greiða þessi fargjöld fyrir hann. Og setjum þetta í annað samhengi. Í vetur var verið að takast á um það hvort hækkun innritunargjalda í Háskólann upp úr 40 og upp í 65 þúsund kall væri aðför að jafnrétti til náms. Hvað þá með rétt þess unga fólks sem á ekki annan kost en að sækja nám sitt fjarri heimabyggð og þarf að lúta slíkum ferðakostnaði, sem stafar meðal annars af skattahækkunum ríkisins á þennan samgöngumáta?"
Ég vék líka að þeirri markvissu stefnu sem virðist í gangi með að auka sífellt álögur á innanlandsflugið sem hefur stuðlað að hækkun flugfargjalda og er hrein atlaga að innanlandsfluginu. Þessi þróun mun halda áfram, samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar.
"Innanríkisráðherra benti á það að í umræðunni á Alþingi að sé litið yfir lengra tímabil þá hafi gjaldahækkanir ríkisins á innanlandsflugið ekki fylgt verðlagi. Og það er einmitt kjarni málsins. Fyrri stjórnvöld fylgdu markvisst þeirri stefnu að halda þessum opinberu gjöldum í skefjum, til þess að skapa gott rekstrarumhverfi fyrir innanlandsflugið og halda aftur af hækkunum á fargjöldum. Nú er snúið við af þeirri braut. Nú er verið að brjóta á bak aftur þessa stefnumörkun, hækka álögur upp úr öllu valdi á sama tíma og aðrar kostnaðarhækkanir ríða yfir. Þessi stefna er fjandsamleg innanlandsfluginu."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook