Allar dyr standa opnar

Byrgið - RockvilleÞað er ástæða til þess að taka undir með stjórnarandstöðunni úr umræðum um málefni Byrgisins á Alþingi í gær. Þeir sögðust enga ábyrgð vilja bera. Það er skiljanlegt. Hvenær hefur núverandi stjórnarandstaða verið tilbúin til að axla ábyrgð? Þeir eru tilbúnir til þess að tala og tala, en á orðum sínum vilja þeir litla ábyrgð taka.

Og það á alveg eins við þó þeir hafi hvatt til þess að aukið fjármagn yrði lagt til starfsemi Byrgisins og í rauninni fundið freklega að því að stjórnvöld væru ekki nægjanlega örlát á almannafé til Byrgisins.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálynda flokksins fór mikinn á Alþingi og brýndi menn mjög til þess að vera útbærari á almannafé til Byrgisins. "Ég hef trú á því að það sem menn hafa verið að gera í Byrginu vestur á Miðnesheiði sé þjóðfélagi okkar mjög verðmætt", sagði hann í þingræðu. Ræður hans af þessu tilefni voru samfelld hvatning til þess að meira yrði greitt úr ríkissjóði.

Félagar hans úr Vinstri Grænum Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson hvöttu og til þess að aukið fé yrði lagt í þessa starfsemi, þó fram kæmi að þeir þekktu ekki starfsemina að ráði. Voru engu að síður tilbúnir til þess að krefjast fjármagns til Byrgisins.

En látum þetta þó liggja á milli hluta. Þeir voru örugglega í góðri trú rétt eins og við hin á Alþingi sem vorum blekkt, eins og Jón Kristjánsson fyrrv. heilbrigðisráðherra benti á í umræðunni í gær.

Aðalatriði málsins er hins vegar það sem Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í þessari sömu umræðu. Fyrrum skjóllstæðingum Byrgisins - og sem við vitum nú að eru fórnarlömb þeirrar starfsemi - standa allar dyr opnar. Okkur ber skylda að bregðast við þegar við verðum vitni að annarri eins misneytingu og þarna hefur komið í ljós og það er verið að gera.

Félagsmálaráðherra Magnús Stefánsson brást líka strax við er honum varð ljóst að misfarið hefði verið með fjármuni Byrgisins. Málinu var komið til Ríkisendurskoðunar, það mál fer nú sína leið á vettvangi lögreglunnar og þar er líka verið að rannsaka hinar alvarlegu ásakanir sem hafa komið fram hjá konum sem þar dvöldu. Þau mál þarf að leiða til lykta - og þá væntanlega á vettvangi dómstóla að lokinni lögreglurannsókn.

Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að hér eru á ferðinni alvarlegir hlutir. Stjórnvöld hafa brugðist við þeim með þeim aðferðum sem tiltæk eru, á vettvangi félags og heilbrigðisþjónustu og með inngripum lögreglu í samræmi við eðli og alvarleika þessara mála.Geta menn nú ekki stillt sig í umræðunni og sameinast um uppbyggileg viðbrögð við þessum mikla harmleik, í stað þess að setja á enn eina ræðulotuna með hávaða og stóryrðum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband