Enn er kysst á vöndinn

 

Það er sama hvernig Evrópusambandið hegðar sér gagnvart okkur sem þjóð; alltaf bugta stjórnvöld sig. Það er ljóst að umsókn okkar um aðild að ESB er farin að hafa alvarleg áhrif á það hvernig réttar okkar er gætt. Móttóið er greinilega þetta: Gerum ekkert sem getur styggt viðmælendur okkar við samningaborðið. Þolum þess vegna öll þau bolabrögð sem ESB beitir okkur.

ESB hótar alvarlegum viðskiptaþvingunum 

Það virðist eins og íslensk stjórnvöld ætli að fylgja reglunni um að kyssa stöðugt á vönd kvalara sinna.

Það nýjasta er auðvitað sú krafa framkvæmdastjórnar ESB að fá aðild að málshöfðun ESA gegn okkur vegna Icesavemálsins.  Þar með stillir þetta stóra og sterka bandalag sér upp gegn okkur í miklu hagsmunamáli, sem hefur skekið þjóðfélag okkar í þrjú ár.

Viðbrögð stjórnvalda við þessum tíðindum eru ekki traustvekjandi. Utanríkisráðherra telur að í þessu felist tækifæri, en formaður utanríkismálanefndar Alþingis kveðst ekkert undrandi á þessu.

Rifjast nú upp það hvernig ESB tók sér stöðu gegn okkur í Icesavemálinu. Þar fór auðvitað ekkert á milli mála að sambandið studdi ófyrirleitnar kröfur Hollendinga og Breta.

En þetta er ekki það eina sem ESB hefur gert í hreinni ögrun gegn okkur

Skemmst er auðvitað að minnast þess vegna sambandið hefur gengið fram í makríldeilunni. Innan þess hafa menn talað purkunarlaust um að setja á okkur viðskiptabann, vegna ágreinings um skiptingu makrílkvótans. Nú síðast komu sjávarútvegsráðherrar ESB saman til þess að ræða sérstaka flýtimeðferð við að setja á okkur viðskiptaþvinganir.

Þessu mættu íslensk stjórnvöld með furðulegu tómlæti. Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra viðurkenndi þó, eftir að ég hafði gengið eftir því við hann á Alþingi, að erfitt væri að halda áfram viðræðum ef viðskiptaþvingunum væri beitt. En í síðari ræðu sinni á Alþingi dró hann síðan í land.

Þessi  aumingjalegu viðbrögð íslenskra stjórnvalda við yfirgangi ríkjasamsteypunnar ESB, eru algjörlega forkastanleg. Það var fullt tilefni til þess að hætta aðildarviðræðum þegar hótanir ESB um viðskiptaþvinganir fóru að berast. Hótunin ein var nægjanlegt og fullt tilefni. Og nú þegar enn er bætt í, með afstöðu ESB til Icesavedómsmálsins, ætti auðvitað að kalla á þau viðbrögð líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband