8.6.2012 | 14:47
Eru mótmælin gegn kvótafrumvörpunum aðgerðir gegn þingræðinu?
Illskiljanleg eru þau orð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að mótmæli útvegsmanna sjómanna séu harkalegar aðgerðir gegn þingræðinu og lýðræðinu í landinu sem eigi ekki að viðgangast. Eða hvernig má það vera að fundur, eins og sá sem boðað var til á Austurvelli í gær, geti beinst að þingræðinu og lýðræðinu? Öðru nær. Friðsamleg mótmæli fólks eru hluti af lýðræði okkar og því getur enginn mótmælt.
Hinar talandi stéttir vinstri manna leggja sig fram um að gera lítið úr fundinum í gær. Þetta er angi þess sama og birtist okkur á fundinum sjálfum, þegar fámennur hópur fólks, hélt uppi háreysti, til þess að koma í veg fyrir að boðskapur þeirra sem boðað höfðu til fundarins heyrðust. Nær væri að segja að slíkt háttalag væri aðgerð gegn lýðræði og því frelsi manna að geta fengið að tjá skoðanir sínar.
Ofan í þetta bætist síðan ótrúleg árátta einstakra þingmanna stjórnarliðsins að tala niður til starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækjanna, sveitarstjórnarmanna, sjómanna og þeirra annarra sem hafa mótmælt hafa kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Með því að uppnefna það taglhnýtinga útgerðarmanna, eða eitthvað álíka, er verið að segja að það hafi ekki frjálsan vilja og ekki sé orð að marka það sem það segir.
Þetta viðhorf lýsir þvílíkum hroka, yfirlæti og drambi, að engu tali tekur. Langt er síðan að álíka dreissugheit hafa heyrst og sést í opinberri umræðu hér á landi og vekur spurningar um hversu mjög það fólk hefur fjarlægst almenning í landinu sem leyfir sér svona málflutning. Og eitt fullyrði ég. Þetta fólk talar ekki í nafni þjóðarinnar, svo mikið er víst.
Látum vera að menn haldi áfram ófrægingarherferð sinni gegn útgerðarmönnum. Það er nú orðið að föstum lið eins og venjulega. En að tala með þessum hætti til sveitarstjórnarmanna, talsmanna landverkafólks og sjómanna eða þá þess fólks sem hefur áhyggjur af framtíð sinni og vinnur í þjónustufyrirtækjum sjávarútvegsins, er aldeilis makalaust.
Þess vegna var það dapurlegt, á annars mjög góðum og fjölsóttum baráttufundi fólks í sjávarútvegi á Austurvelli í gær og sem ég sótti, að verða vitni að því að örlítill hópur fólks, reyndi allt hvað það gat til þess að koma í veg fyrir að forystumaður skipstjórnarmanna, útgerðarmaður, trillukarl í Þorlákshöfn , sveitarstjórnarmaður úr litlu byggðarlagi í Eyjafirði, fulltrúi þjónustufyrirtækis við sjávarútveginn, eða fulltrúi verkafólks í Vestmannaeyjum gætu sagt skoðanir sínar. Það tókst þó hins vegar sem betur fer ekki, en jafn skammarlegt var tiltækið engu að síður.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook