Rétt eins og risaeðla frá forsögulegri tíð

  

 

Það blæs ekki byrlega í heimsbúskapnum.  Það hagkerfi sem lengstum hefur verið ríkjandi í heiminum, Bandaríkin, á í miklum vanda. Hagvaxtartölur eru slakar og atvinnuleysið virðist vera orðið fast í sessi, þrátt fyrir gríðarlegar upphæðir sem ríkisstjórn Obama hefur dælt inn í hagkerfið.

Umsóknin verður könnunarleiðangur!

Nýju hagkerfin sem hingað til hafa dregið áfram hagvöxtinn, eru mun veikari en menn töldu.  Hagvöxtur í Kína fer sýnilega minnkandi og þar hafa margir áhyggjur á að sú mikla aukning í þjóðarframleiðslu sem við höfum séð á undanförnum árum, kunni að vera bóla sem gæti sprungið. Indland, hitt stóra nýja hagkerfið sýnir líka mikil þreytumerki, með minnkandi hagvexti, lítilli fjárfestingu í  atvinnulífinu og lækkandi gengi  gjaldmiðilsins. Og stóra hagkerfið í Suður Ameríku, Brasilía, er núna með hagvöxt sem er minni en í Japan, sem þó hefur verið í stöðnunarástandi meira og minna frá tímum fjármálakreppunnar í Asíu og það þrátt fyrir nánast 0 vexti á útlánum.

En þó þetta sé slæmt, er það ekkert í samjöfnuði við evrusvæðið. Þar rambar Grikkland á gjaldþrotsbrúninni og önnur ríki nálgast þessa sömu bjargbrún. Bankar kalla eftir stuðningi ríkisstjórna, sem bera nú í vaxandi mæli ábyrgð á skuldbindingum einkafyrirtækja, sem fyrr eða síðar getur breyst í hrein útgjöld  og þar með skattahækkanir í kjölfarið.

Hið mikla vald, evran, hefur augljóslega ekki reynst sú lausn sem að var stefnt. Innri mótsagnir svona fjölþjóða peningakerfis virðast vera að leiða það í hreina glötun, eins og ýmsir spáðu svo sem fyrir um.

Þær lausnir sem menn sjá á þessu ástandi, fela í sér stórauknar sameiginlegar skuldbindingar evruríkjanna. Þar má nefna dæmi eins og um útgáfu sameiginlegra evruskuldabréfa innan vébanda evrópska seðlabankans. Endalaust vakir svo yfir krafan um samræmingu peningamálastefnu evrusvæðisins og ríkisfjármálastefnu einstakra ríkja.

Gallinn er hins vegar sá að þetta mun leiða til aukins valdaframsals sjálfstæðra þjóðríkja til ESB, evrópska seðlabankans og yfirþjóðlegra stofnana sem ekki hafa lýðræðislegt umboð. Og þar stendur hnífurinn í hinni frægu kú. Engin þolinmæði er gagnvart slíku á meðal íbúa Evrópu.

Sem sagt. Það er uppi algjört ráðleysi. Við höfum heyrt um fleiri björgunarpakka frá ESB en nokkur hefur tölu á. Trúverðugleikinn er horfinn og hið mikla ríkjasamband og hin sameiginleg mynt þess  evran,stendur uppi sem eins konar risaeðla frá fornri tíð, sem  vaxandi efasemdir eru um að eigi sér mikla framtíð. Ekki frekar en risaeðlurnar á forsögulegri tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband