Erlend fjárfesting er það heillin

  

 

Ekki er langt síðan að háværar deilur stóðu um réttmæti erlendra fjárfestinga á Íslandi. Þessar deilur blossuðu upp í árdaga uppbyggingar á stóriðju. Þannig var tekist á um það þegar álverið í Straumsvík var byggt. Frægt er svo að hópur mótmælenda steðjaði á Grundartanga við Hvalfjörð og reisti níðstöng til þess að mótmæla áformum um uppbyggingu Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga á sínum tíma.

Frá Grundartanga 

Þetta var í þá daga. Og allt fram á þennan dag höfum við séð slíka umræðu, þar sem varað er við ásælni erlendra auðhringja, sem vildu seilast inn í íslenskt atvinnulíf, hafa áhrif á efnahagslífið og raunar þjóðlífið allt. Nefna mætti til sögunnar margs konar fleyg orð sem féllu í þessa veru.

Í sögulegu samhengi núna er það síðan athyglisvert að þeir sem fremstir fóru í slíkri umræðu voru vinstri menn allra  handa. Þeir fóru harðast fram gegn öllum hugmyndum um erlenda fjárfestingu og höfðu uppi stærstu orðin.

En sagan getur verið lævís og lipur, ekki síður en syndin ( sbr. heiti frægrar ævisögu Jóns Kristórfers kadetts) . Og örlögin geta verið meinleg og grá, eins og allir vita.

Gerist það nú ekki að við völd er ríkisstjórn á Íslandi, sem af aðstandendum er nefnd fyrsta tæra vinstri stjórnin; það er ríkisstjórn sem ekki er „menguð“ af miðjuviðhorfum Framsóknarflokksins. Og hvað gerist þá?

Iðnaðarráðherra þessarar ríkisstjórnar mælir fyrir tillögu á Alþingi um stefnu varðandi beinar fjárfestingar og gerði það í nafni ríkisstjórnarinnar. Þar getur sitthvað fróðlegt að líta. Svo sem eins og þetta: „Alþingi ályktar að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu og markaðssetning byggð á skýrum markmiðum sé sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.“

Þarna eru tekin af öll tvímæli. Bæta þarf samkeppnishæfi landsins gagnvart erlendri fjárfestingu, sem á að verða sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.

Þetta samþykktum við svo á Alþingi í gær. Ályktuðum um að við vildum auka aðdráttarafl Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu,  gera hana að sérstöku viðfangsefni og leggja á hana aukna áherslu

Þá vitum við það sem sagt. Erlend fjárfesting er það heillin. Það urðu sem sagt örlög vinstri stjórnarinnar tæru, að marka sérstaka stefnu um að fá hingað útlendinga til fjárfestinga.

Baráttan gegn ásælni erlendra auðhringja ( eins og það hét í den) er grafin. Vinstri menn segjast vilja heilsa nýjum tímum og laða til sín útlendinga til þess að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.

 Þar kom að því!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband