Skítt með forsetakosningarnar

 

 

Forsetakosningar nálgast nú óðfluga. Hingað til hefur jafnan gilt sú sjálfsagða regla að þingstörf liggi niðri í grennd við kosningar, svo sem forsetakosningar og sveitarstjórnarkosningar, til þess að gefa umræðum á þeim vettvangi eðlilegt svigrúm. Á því er þó ein undantekning á seinni árum. Við síðustu sveitarstjórnarkosningar, var Alþingi að störfum framundir kjördag og sætti þá eðlilega gagnrýni sveitarstjórnarmanna og frambjóðenda.

566033 

Þeirri för réðu forystumenn ríkisstjórnarinnar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Og nú endurtaka þau leikinn í aðdraganda forsetakjörsins. Fyrir ellefu dögum tók ég málið upp á Alþingi og spurði Steingrím J. Sigfússon, með þessum orðum:

„Fram undan eru forsetakosningar og hingað til hefur það verið almennur skilningur að Alþingi bæri að gefa öðrum almennum kosningum rými á hinum lýðræðislega vettvangi til þeirrar umræðu sem er nauðsynlegur aðdragandi kosninga í lýðræðisríki. Það hefur til dæmis alltaf verið gert gagnvart sveitarstjórnarkosningunum nema nú síðast. Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli að koma eins fram gagnvart forsetakosningunum sem eru sögulegar í ljósi þess að í fyrsta skipti á lýðveldistímanum má segja að boðið sé fram með alvöruhætti gegn sitjandi forseta. Þá er mikil gerjun í umræðunni um stöðu og vald forsetans í stjórnskipun okkar og þess vegna er mjög mikilvægt að um þau mál geti farið fram lýðræðisleg umræða.“

Ráðherrann var alveg áhyggjulaus. Hann taldi helst að þjóðin væri svo áhugasöm um EM í knattspyrnu ( sem hún sannarlega er) að engu breytti þó þjóðmálaumræðan á Alþingi skyggði eitthvað á forsetakosningarnar.

Og enn virðist hið sama vera uppi á teningnum. Alþingi heldur áfram störfum sínum. Ríkisstjórnin situr við sinn keip; og rembist. Það er engu eirt. Stoltir ráðherrar og einsýnir fara sínu fram og skítt með forsetakosningarnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband