16.2.2007 | 08:45
Nú eigum við eina sál
Almennt er hinum nýju samgönguáætlunum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi í gær vel tekið. Nema vitaskuld það fyrirsjáanlega og hefðbundna sífur nokkurra stjórnarandstæðinga. Það kippir sér þó enginn upp við það. Látum það ekki skyggja á ánægjuleg tímamót.
Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar þessari stefnumótun í sérstakri ályktun sem gerð var og víðar hefur henni verið vel tekið.
Það er í þessu sambandi sérstaklega ánægjulegt að sjá hve mikill stuðningur er við fyrirhuguð Óshlíðargöng, eða Bolungarvíkurgöng, eins og þau eru líka nefnd. Til viðbótar við ánægju og fögnuð heimamanna hafa leiðarahöfundar tveggja dagblaða lýst yfir sérstakri ánægju sinni.
Morgunblaðið skrifar leiðara í fyrradag, miðvikudaginn 14. febrúar og segir: "Þá er sérstök ástæða til að fagna því að gert er ráð fyrir að ljúka jarðgöngum á milli Bolugnarvíkur og Hnífsdals á næstu þremur árum. Það er ekki lengur hægt að bjóða Bolvíkingurum og því fólki sem á leið til Bolungarvíkur upp á þá miklu slysahættu sem er jafnan til staðar á veginum milli Hnífsdals og Bolungarvíkur. Vestfirðingar hljóta að fagna því mjög að nú verður ráðist í þessa framkvæmd".
Blaðið skrifar í sama dúr: "Auðvitað er nauðsynlegt að bæta samgöngukerfið. Það mótmæla því fáir ef þá nokkrir. Það er til dæmis ekki lengur hægt að bjóða íbúum Bolungarvíkur upp á að keyra Óshlíðarveginn. Það má í raun teljast ótrúleg mildi að grjóthrun úr hlíðinni hafi ekki valdið meiri skaða en raun ber vitni. Þetta er stórhættulegur vegur og Óshlíðargöngin bráðnauðsynleg samgöngubót."
Áður hafði svo Fréttablaðið skrifað mjög í sama anda um þetta mál.
Það er því ljóst að mikill samhljómur er um þessa framkvæmd. Um hana er sannkölluð þjóðarsátt. Þetta fann maður einnig frá fyrsta degi.
Þegar ákveðið var á fyrsta ríkisstjórnarfundinum sem ég sat að setja sérstakt fjármagn til umræddra jarðganga má segja að teningunum hafi verið kastað. Æ síðan hefur verið unnið, með dyggum stuðningi heimamanna að þessu máli. Við þau tímamót skrifaði ég á þessa blogg síðu:
"Gamla bolvíska aðferðin að vinna án hávaða en með þrautseigju reyndist vel, eins og svo oft, fyrr og síðar. Þessu fögnum við Bolvíkingar. En það er ekki allt. Maður hefur fundið ótrúlegan stuðning við þetta mál úti í þjóðfélaginu. Ég hef varla hitt mann sem ekki hefur fært þetta í tal við mig upp á síðkastið. Og sem ég sit við gerð þessa pistils renna SMS sendingar með heillaóskum inn á símann minn. Þessi framkvæmd nýtur nefnilega ótrúlegs velvilja úti um allt þjóðfélagið. Fyrir það erum við afskaplega þakklátir, íbúar Bolungarvíkur."
Nú er ástæða til að gleðjast. Það gerðu bæjarstjórnirnar í Bolungarvík og Ísafirði á þessum tímamótum, algjörlega án tillits til pólitískra skoðana. Slíkt þjóðþrifaverk er ofar pólitísku dægurþrasi. Það er eins og sagði í kvæði þjóðskáldsins; nú eigum við eina sál.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook