Hið banvæna faðmlag

 

Það var ágætt að vera í dálítilli fjarlægð frá amstri heimsins um kosningahelgina og rúmlega það. Nýkominn norðan úr Aðalvík eftir nokkurra daga göngu var það svolítið sérkennilegt í gærkveldi að dembast inn í vangaveltur bloggheimsins um forsetakjörið.

Ólafur Ragnar Grímsson 

 Af hverju vann Ólafur Ragnar Grímsson? Þetta er spurningin sem spurt er í þjóðfélagsumræðunni þessa sólahringana.Nokkur atriði koma upp í hugann.

Í fyrsta lagi. Ólafur Ragnar Grímsson er sitjandi forseti. Umdeildur svo sannarlega, en staða hans sem forseta gaf honum vitaskuld forskot. Í upphafi baráttunnar átti hann á brattann að sækja, en með innkomu sinni í baráttuna, sem einkenndist af hans hálfu af hörku og bardagagleði, tókst honum að brjóta sér leið út úr þeirri kröppu stöðu sem skoðanakannanir höfðu sýnt að hann var staddur í.

Í annan stað nýtti Ólafur Ragnar sér vel það tómarúm sem tætingsbragur og forystuleysi núverandi ríkisstjórnar hefur framkallað, til þess að skapa sér stöðu sem „hinn sterki maður“.

Í þriðja lagi er enginn vafi á því að Ólafur Ragnar höfðaði til fjölda fólks vegna eindreginnar andstöðu sinnar við ESB aðild. Kosningarnar snérust því að nokkru um afstöðuna til ESB. Forsetinn skar sig úr og var eindreginn í skoðunum sínum.

Í fjórða lagi er augljóst að fólk kunni að meta að forsetinn hafði nýtt sér neitunarvaldið, sem hann hefur nú virkjað, til þess brjóta á bak aftur stefnu ríkistjórnarinnar varðandi Icesvae. Kosningarnar voru því öðrum þræði eins konar uppgjör við það umdeilda mál og samningsmistök ríkisstjórnarinnar.

Í fimmta lagi duldist engum að Ólafur Ragnar var orðinn skotspónn ríkisstjórnarinnar. Forystufólk ríkisstjórnarinnar og talsmenn hennar hafa ekki dulið óbeit sína á forsetanum. Ríkisstjórnin er með eindæmum óvinsæl og rykti ráðherranna rýrt og smátt. Þannig var Ólafi Ragnari stillt upp sem andstæðingi ríkisstjórnarinnar og það hafði því áhrif á þann yfirgnæfandi hluta þjóðarinnar sem hefur óbeit á ríkisstjórninni.

Og loks er enn eitt að nefna sem mjög mátti merkja í kosningabaráttunni. Það varð Þóru Arnórsdóttur til mikillar ógæfu að þekkt VG og Samfylkingarfólk, tók hana mjög upp á arma sína og gerði að „sínum“ frambjóðanda. Þóra verðskuldaði þetta ekki. Ekkert af því sem ég sá til hennar eða heyrði gaf í rauninni tilefni til slíks. En þessi fyrirferðamikla nálægð Samfylkingar- og VG fólks við framboð hennar, einangraði hana frá stórum hópi fólks, sem var þó fráleitt í nokkrum aðdáendahópi Ólafs Ragnars Grímssonar. Það má því segja að þetta hafi orðið eins konar banvænt faðmlag og átti örugglega mikinn þátt í því hvernig fór.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband