Innistæðulaust mont

 

 

Litlu verður Vöggur feginn. Nú er reynt að telja ríkisstjórninni það til pólitískra tekna að ekki er lengur samdráttur í þjóðarbúskapnum.  Og lesa má í skrifum einstakra þingmanna og vildarvina ríkisstjórnarinnar að afrek megi það telja, tæpum fjórum árum eftir bankahrunið að merkja megi breytingar á þessum tíma.

Hefur ríkisstjórnin gert eitthvað til þess að stuðla að auknum hagvexti? Kjarni málsins felst í spurningunni: Hvað hefur ríkisstjórnin gert til þess að örva atvinnulífið? Allir vita svarið. Hún hefur þvælst fyrir. 

Heyr á endemi! 

Menn reyna að stæra sig af því að eitthvað hafi mönnum miðað áfram á heilum fjórum árum. En gáum að. Hefur ríkisstjórnin lagt eitthvað mikilvægt að mörkum  til þess að örva hagvöxt í landinu?

Hafa stjórnvöld til dæmis leitast við að stuðla að fjárfestingum ? Það vita allir svarið við því. Helsta afrek þeirra er að þvælast fyrir fjárfestingum og gildir þá nánast einu hvar borið er niður.

Skattar á atvinnulíf og almenning hafa hækkað. Skattkerfið hefur verið flækt svo um munar. Afleiðingarnar hafa verið fyrirsjáanlegar. Fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Og ekki bara það. Menn tala um það opinberlega að svarta hagkerfið hafi blásið út. Má í því sambandi nefna til sannindamerkis, orð Guðmundar Gunnarssonar verkalýðsforingja og skattarannsóknarstjóra sem lét slík ummæli falla í útvarpinu.

Það liggur þá fyrir að það er amk. vöxtur á einu sviði í landinu. Á sviði hins svarta hagkerfis!

Allir þekkja það að stjórnvöld hafa tekið sjávarútveginn í eins konar pólitíska bóndabeygju. Þar hafa menn vart þorað að hreyfa sig  til nokkurra fjárfestinga. Sést það meðal annars á því að fyrirtæki sem framleiða fjárfestingarvörur  fyrir sjávarútveginn, hafa einkanlega stundað útflutning. Innanlandsmarkaðurinn er ekki svipur hjá sjón.

Þá er augljóst að pólitísk andstaða stjórnvalda í garð stóriðju hefur þvælst fyrir fjárfestingu á því sviði. Ekki bara í áliðnaði, heldur á öðrum sviðum líka. Gagnaverin voru hér um bil hrakin úr landi vegna skattastefnu stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein. Kolefnisgjaldtakan sem var fyrirhuguð í tvígang, þvældist fyrir uppbyggingu í kísiliðnaði, eins og upplýst var á sínum tíma.

Ferðaþjónustan er hins vegar ljós í myrkri. Skipuleg markaðssetning til margra ára, lágt gengi og umfjöllun um Ísland til margra ára hefur skilað okkur kærkomnum vexti í þessari atvinnugrein. En ríkjandi stjórnvöld geta ekki þakkað sér það.

Og loks má nefna margs konar sprotastarfsemi, sem sannarlega hefur notið lágs gengis. En allir viðurkenna að skattaflækjur og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa þvælst þar fyrir. Meira að segja ríkisstjórnin sér það, með því að setja á laggirnar skattaívilnanir fyrir valdar atvinnugreinar. Og viðurkennir þar með að þessi atvinnustarfsemi fáist ekki þrifist hér á landi í því almenna skattaumhverfi sem atvinnulífinu eru búið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband