Stefna ríkisstjórnarinnar: Ekkert meira verði gert fyrir skuldug heimili

 

 

Það leið varla sú vika á vormánuðum á Alþingi, að Helgi Hjörvar færi ekki upp í ræðustól þingsins til þess að tilkynna okkur ábúðarmikill mjög, að nú væri efnahags og viðskiptanefnd sem hann er í formennsku fyrir, að vinna að miklum tímamótatillögum  í þágu skuldugra heimila. Þessa ræðu hans má taka sem dæmi.

Allt síðasta vor sagðist ríkisstjórnin vera að vinna að margháttuðum lagfæringum í þágu heimilanna, ýmist með fjármálastofnunum, Íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðunum. Svo gerðist bara ekkert. Það segir svo sína sögu að ríkisstjórnin í sinni eymd, kenndi öllum öðrum um nema sjálfri sér.

2rikisstjornJS-31des11 Það er afdráttarlaus stefna ríkisstjórnarinnar að gera ekkert frekar í skuldamálum heimilanna

Þetta háttalag segir okkur bara eitt, sem þó er þýðingarmikið að við áttum okkur á:  Ríkisstjórnin mun ekkert frekar aðhafast í þessum málum. Og þó. Það er ekki hægt að útiloka að í örvæntingu sinni nú í haust, verði lagt af stað í einhverja sýndar vegferð. Ekki af skilningi í garð heimilanna. Heldur vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir óttast kjósendur og muni af þeim ástæðum setja af stað eitthvert sjónarspil.

Verkleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum á svo sem ekki að koma á óvart. Að minnsta kosti tvö ár eru liðin síðan að forsætisráðherrann sagði nóg að gert fyrir heimilin. Það þyrfti ekkert frekar að gera. Hörð viðbrögð stjórnarandstöðunnar á þingi og almennings í þjóðfélaginu, urðu síðan til þess að brugðist var við. En allt reyndist það meira og minna í skötulíki.

Það sem menn hafa kallað aðgerðir í þágu heimilanna eru fyrst og fremst skuldalækkanir sem hafa fengist með því að erlend lán voru dæmd ólögmæt. Um það má fræðast HÉR. Það var ekki verk ríkisstjórnarinnar. Hennar verk til skuldalækkunar heimilanna eru lítil og smá.

Það vantar ekki að fjölmörg þingmál þingmanna til hagsbóta fyrir heimilin voru lögð fram í vetur. En þetta voru mál stjórnarandastöðuþingmanna. Þau mátti þess vegna ekki afgreiða. Skuldug heimilin guldu síðan fyrir þessa meinbægni ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna þeirra á Alþingi.

Dæmi má nefna. Ég flutti frumvarp ásamt fleiri þingmönnum sem fól í sér að Íbúðalánasjóði væri gert kleyft að koma til móts við skuldugt fólk, með sama hætti og Landsbankinn gerði. Sanngirnismál, sem ýmsir stjórnarliðar höfðu raunar lýst stuðningi við. Því máli var hafnað í vor. Velferðarráðherrann flutti rökin fyrir þeirri afstöðu stjórnarliðsins.

Þannig hafa stjórnarliðar sýnt sitt rétta andlit. Allir sem einn. Ekki bara ráðherrarnir, heldur aðrir þingmenn líka. Þeir hafa sýnt á spilin sín. Þeir hafa markað stefnuna. Þeir ætla ekki og þeir vilja ekki að frekar sé aðhafst fyrir skuldug heimili í landinu. Það er þeirra meining.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband