Hörð gagnrýni frá öflugustu evruríkjunum

 

Helsta ástæða þess að ýmsir hér litu með velþóknun til Evrópusambandsins fyrir fáeinum árum var evran. Eftir fall íslensku krónunnar, töldu menn sig finna skjól í þessu mikla myntbandalagi sterkra Evrópuþjóða. Evran virtist traust í sessi og þeir voru hæddir og spottaðir sem höfðu varað við upptöku hennar á sínum tíma.

En valt er völubeinið. Nú er öldin svo sannarlega orðin önnur. Hið mikla vígi evran, riðar nú dag hvern. Og það telst ekki lengur til tíðinda að mektarmenn spái falli hennar. Slíkir spádómar koma raunar úr öllum áttum; frá fræðimönnum, bankamönnum, stjórnmálamönnum og raunar guð má vita hverjum.

Hinar innri mótsagnir evrunnar, það er miðstýrð peningamálastefna en ríkisfjármálastefna á forræði þjóðríkjanna, leiða til þess að evrusamstarfið getur ekki gengið upp á núverandi forsendum. Það virðist ætla að rætast sem Williams Rees Mogg fyrrverandi ritstjóri breska blaðsins The Times sagði á sinni tíð. Hann hélt því fram að sagan sýndi okkur að svona samstarf gæti aðeins lifað af í góðæri. En um leið og það tæki að blása á móti, hryndi það.

Mitt í vandræðagangi evrulandanna grípa talsmenn myntsamstarfs Evrópu til þess að vísa til Finnlands. Eina norræna evruríkisins, ríkis þar sem flestar hagtölur eru jákvæðar. En ekki er þetta allt sem sýnist.

Finland+and+European+union+flag+65045 Innan við þriðjungur utarnríkisviðskipta Finna er við önnur evruríki

Finnland hefur mikla sérstöðu. Svo merkilegt sem það nú er, þá eiga Finnar tiltölulega lítil viðskipti við önnur evruríki.Innan við þriðjungur viðskipta landsins er við önnur evruríki og því hefur kreppan í evruheiminum minni áhrif í Finnlandi.

Engu að síður eru Finnar mjög gagnrýnir á það sem er að gerast á vettvangi evrusamstarfsins. Þátttaka þeirra í fjölmörgum björgunaraðgerðum  á evrusvæðinu er harðlega gagnrýnd innanlands og leiddi meðal annars til mikils kosningasigurs Sannra Finna í síðustu kosningum. Í hugum margra eru Finnar að taka á sig byrðar annarra að ósekju, eftir að hafa hert mjög sultarólina í kjölfar kreppu landsins á síðasta áratug 20. aldar.

Það er því athyglisvert að gagnrýnin á evruna er ekki síst að eiga sér stað í þeim löndum sem öflugust eru í evrusamstarfinu. Finnland og Þýskaland eru góð dæmi um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband