Valdabrask og fúsk

 

Flutningur Veiðimálastofnunar frá Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu til Umhverfisráðuneytisins, er afleiðing af valdabraski sem hefur átt sér stað innan og á milli ríkisstjórnarflokkanna vegna breytinga á Stjórnarráðinu. Þar sem um hreint valdabrask var að ræða, var að sjálfsögðu ekkert samráð haft við nokkurn mann um þessar breytingar, hvorki forstjórann, starfsmenn né hagsmunaaðila. Þegar verið er að tefla valdatafl er samráð enda fullkomlega marklaust. Í slíku tafli skipta þeir einir máli, sem taka þátt í því. Þeir sem við eiga að búa, starfsmenn og viðskiptavinir stofnunarinnar eru aukaatriði í því máli.

images Flutningur Veiðmálastofnunarinnar er hluti af því pólitíska valdabraski og fúski sem nú á sér stað um Stjórnarráðið.

Bakgrunnur málsins er annars þessi. Þegar lagt var af stað með breytingar á Stjórnarráðinu var ætlunin sú að færa Hafrannsóknarstofnunina undir Umhverfisráðuneytið. Þeim áformum var mótmælt harðlega úr öllum áttum. Ríkisstjórnin gugnaði því. Hafró verður áfram undir Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu ( nú innan skamms atvinnuvegaráðuneytinu) Þó var búin til sérstök lykkja á málatilbúnaðinn, þannig að umhverfisráðuneytið ætti aðkomu að stefnumótandi þáttum Hafrannsóknarstofnunarinnar. Hvernig það er hugsað er hins vegar óskrifað blað. Forsætisráðherra, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra sýndu þann makalausa hroka þegar ég leitaði eftir svörum um þetta í umræðum á Alþingi um breytingar á stjórnarráðinu núna í vor, að svara ekki spurningunum, né heldur því hvað yrði um Veiðimálastofnun.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra  sóttist ákveðið eftir því að færa Hafrannsóknarstofnunina undir ráðuneyti sitt. Þó hún fengi því ekki framgengt  voru henni veittar þær sárabætur að Veiðimálastofnunin verður færð undir ráðuneyti hennar.

Og enn þarf að setja þetta mál í pólitískt samhengi. Þessi áform með Hafrannsóknarstofnun og Veiðimálastofnunina hafa staðið til allt þetta kjörtímabil. Þau mættu andstöðu fyrrverandi ráðherra, Jóns Bjarnasonar. Það er ein ástæða þess að honum var vikið út úr ríkisstjórninni. Þegar forystumenn ríkisstjórninarinnar voru lausir við hann tóku þeir til óspilltra málanna og keyrðu málið í gegn með hjálpakokkum sínum úr liði Bjartrar framtíðar og Hreyfingarinnar.

jon Jón Bjarnason var andsnúinn flutningi Veiðimálastofnunarinnar og Hafrannsóknarstofnunarinnar. Hann var látinn fjúka.

Ríkisstjórnin talar gjarnan um stjórnkerfisumbætur, samráð og fagmennsku, þegar þeir tala um breytingarnar á Stjórnarráðinu sem hafa staðið yfir allt þetta kjörtímabil. Það sjá allir að slíkt tal er hin fullkomna fjarstæða. Valdabrask og fúsk, eru orð sem lýsa miklu betur  því sem nú er verið að aðhafast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband