2.9.2012 | 13:35
Nú ríkir Þórðargleði í stjórnarliðinu
Þeim fækkar dag frá degi ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem ekki hafa brotið jafnréttislögin. Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála eru núna orðnir bindandi, að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Engu að síður gera ráðherrar ríkisstjórnar hennar, að henni meðtalinni sjálfri, ekkert með þessa úrskurði.
Nýjasta dæmið er af Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Áður hafði Jóhanna Sigurðardóttir orðið uppvís að broti af þessum lögum.
Veiðileyfi á Ögmund?
Það vekur athygli hvernig stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar taka með misjöfnum hætti á þessum tveimur málum.
Í tilviki Ögmundar Jónassonar er augljóst að á hann hefur verið gefið út veiðileyfi. Nú ryðjast fram félagar ráðherrans úr báðum stjórnarflokkunum, til þess að taka undir gagnrýni á hann. Það má einnig sjá HÉR. Athyglisvert er að hvorki formaður flokks hans, Steingrímur J. Sigfússon, né forsætisráðherrann, hin dæmda Jóhanna Sigurðardóttir, lyfta litla fingri honum til aðstoðar í hremmingunum.
Fleiri dæmi. Hér.
Ögmundur Jónasson hefur nefnilega unnið sér til pólitísks óhelgis að vera ekki þægur taglhnýtingur ríkisstjórnarforystunnar. Það blasir þess vegna við hverjum manni að á ríkisstjórnarbænum ríkir núna pólitísk Þórðargleði * yfir vanda innanríkisráðherrans.
Formaður Jafnréttisráðs telur bersýnilega að ráðherrann eigi að víkja vegna málsins. Femínistafélagið gagnrýndi sömuleiðis ráðherrann. Þetta félag þagði hins vegar sem stífast yfir jafnréttisbrotum Jóhönnu Sigurðardóttur. Talskona félagsins bar því við að sumarfí hefðu valdið því að félagið lét sig það mál engu varða!! Hið sólríka íslenska sumar hefur greinilega orðið margt á samviskunni.
Brotamál Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra voru rædd á Alþingi, þann 24. mars 2011 undir hatti munnlegrar skýrslu sem ráðherrann gaf, að ósk þingmanna.Málin voru raunar einnig nokkrum sinnum rædd síðar á þinginu. Umræðan á Alþingi um brot forsætisráðherrans fór allt öðruvísi fram af hálfu stjórnarliða, en sú sem nú á sér stað af þeirra hálfu. Báðir flokkar sendu fram fullskipað lið til umræðunnar þegar Jóhanna Sigurðardóttir átti í hlut. Allir áttu þingmenn stjórnarflokkanna sem tóku þátt í umræðunni það sammerkt að taka til varna fyrir forsætisráðherrann. Þver öfugt við það sem nú á sér stað í tilviki innanríkisráðherra. Hann fær engan stuðning frá félögum sínum, í sambærilegu máli, en þeim fleiri eru mættir með rýtinginn á lofti.
Stjórnarliðar komu Jóhönnu til varnar´eftir að hún var orðin uppvís að lögbrotum sínum. Það sama á bersýnilega ekki við í máli Ögmundar Jónassonar
Ögmundur Jónasson hefur verið óþægur ljár í þúfu ríkisstjórnarelítunnar. Hann hefur leyft sér margs konar gagnrýni á framgang stjórnarinnar. Nú síðast í Grímsstaðamálinu og varðandi aðildina að ESB. Fyrir það fær hann að gjalda núna.
Hitt er síðan ljóst að bæði Ögmundur og Jóhanna hafa orðið ber að fullkomnum tvískinnungshætti í allri þessari umræðu, með hliðsjón af fyrri ummælum sínum. Það á einnig við um félaga þeirra í ríkisstjórninni. En tvískinnungur og ósamræmi í málflutningi af hálfu stjórnarliða er náttúrlega fyrir löngu hættur að teljast til tíðinda.
* Þórðargleði, að hlakka yfir óförum annarra
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook