Líkkistunaglinn í launalöggjöf ríkisstjórnarinnar

 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra rak síðasta nalgann í líkkistu launalöggjafar ríkisstjórnarinnar nú á dögunum. Þar með lauk endanlega þeirri lýðsskrumsstefnu sem ríkisstjórnin markaði og fólst í því að enginn skyldi vera með hærri dagvinnulaun en sem svaraði launum forsætisráðherra.

683-220 Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra rak síðasta nalgann í líkkistu launalöggjafar ríkisstjórnarinnar

Umræðan um launamál forstjóra Landsspítalans ætti auðvitað ekki að lúta að persónu hans. Það er bæði ósanngjarnt og rangt. Hún ætti að snúast um þá stefnumótun sem ríkisstjórnin leiddi í lög á árinu 2009.

Þessi stefnumörkun lyktaði langar leiðir af lýðskrumi, eins og bent var á. Það var talið til vinsælda fallið að lýsa því yfir að lækka skyldi laun þeirra starfsmanna hjá ríkinu sem hærri dagvinnulaun hefðu en forsætisráðherrann. Sannleikurinn er hins vegar sá að þessi stefnumörkun hefur ekki gengið eftir, eins og að var stefnt og velferðarráðherrann staðfesti það í rauninni með því að búa til hjáleið framhjá lögunum og kalla launahækkanirnar einhverjum öðrum nöfnum.

Við sjálfstæðismenn vöruðum við þessari stefnumörkun í upphafi. Þó allir séu sammála um að hófs verði að gæta í launamálum og ríkið verði í þeim efnum sem öðrum að gæta aðhalds, var augljóst að lýðsskrumslöggjöf, eins og sú sem sett var árið 2009 var ekki líkleg til þess að endast, né vera eitthvað alvöru innlegg inn það verkefni.

Ég tók þetta mál fyrir á Alþingi 14. Júní árið 2010 og spurði þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur um hvernig staðið yrði að því að lækka laun í heilbrigðisþjónustu. Tilefni fyrirspurnar minnar var af tvennum toga. Annars vegar vísaði ég í gögn sem fram komu á Alþingi og sýndu að 402 einstaklingar hjá ríkinu hefðu hærri laun en forsætisráðherra og af þeim væru um 90% í heilbrigðisþjónustunni, læknar, hjúkrunarfræðingar ofl. Það væri því ljóst að lagasetningin frá árinu áður hlyti að leiða til launalækkunar hjá hundruðum heilbrigðisstarfsmanna. Hins vegar vakti ég athygli á orðum ráðherrans um að lækka ætti laun heilbrigðisstarfsfólks.

Ráðherrann skóf ekki utan af því. Hún sagðist hafa gefið út fyrirmæli um að lækka hæstu launin í heilbrigðisþjónustunni. Þá lá það fyrir og náði vitaskuld ma til þeirra rúmlega 400 heilbrigðisstarfsmanna sem hefðu hærri laun en forsætisráðherrann.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um að enginn skyldi hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra, þyrptust stjórnarliðar í ræðustólinn á Alþingi til þess að prísa þessa stefnumörkun. Þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason gekk svo langt að segja að ekki ætti að kveða á um að viðmiðunin yrði dagvinnulaun, heldur að heildarlaun opinberra starfsmanna yrðu ekki umfram laun forsætisráðherra.

Þannig var ásetningurinn skýr og mæltist örugglega ekki illa fyrir alls staðar. Það var að minnsta kosti ljóst að þeir sem á málinu báru hina pólitísku ábyrgð töldu það til vinsælda fallið – fyrir sig að minnsta kosti.

En núna tveimur til þremur árum síðar er sagan öll. Blekkingarleiknum er lokið og tjaldið fallið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband