7.10.2012 | 11:03
Látum þetta ekki yfir okkur ganga
Sannleikurinn er sá að umræðan um atkvæðavægið er á miklum villigötum. Þegar menn velta fyrir sér kosningafyrirkomulagi í öðrum löndum hafa menn í huga marga þætti. Ekki bara spurninguna um atkvæðavægið.
Fyrir nokkrum árum lét breska þingið fara fram ítarlega úttekt á þessum málum, vegna deilna sem þar í landi hafa verið um þessi mál. Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi sem leiðir til þess að ekki er nákvæm fylgni á milli heildaratkvæðamagns flokkanna og þingmannafjölda þeirra. Þannig er þetta vitaskuld víðar þar sem einmenningskjördæmi eru.
Hafna ber 5. spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni/ skoðanakönnuninni. Því verði hún samþykkt og rati þetta ákvæði inn í nýja stjórnarskrá, mun það hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir landsbyggðina.
Í þessari úttekt breska þingsins var bent á að nokkra þætti bæri að leggja til grundvallar þegar rætt væri um kosningafyrirkomulag. Nefna má í þessu sambandi þrennt:
1. Vægi atkvæða
2. Hvernig hægt sé að tryggja sem best samband þingmanns og kjósanda.
3. Hvort kosningakerfið sé líklegt til þess að stuðla að myndun meirihlutastjórnar.
Samband þingmanna og kjósenda
Í stórum kjördæmum, svo ekki sé nú talað um þar sem landið er eitt kjördæmi, skerðist möguleikinn á virku sambandi þingmanns og kjósanda. Nútíma tölvutækni, tölvupóstar og slík fjarskipti koma ekki í stað hins milliliðalausa sambands sem er svo mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi.
Erfiðara með myndun ríkisstjórna
Þar sem landið er eitt kjördæmi og án þröskuldar sem menn þurfi að komast yfir til þess að fá menn á þing, verða hinir pólitísku kostir mjög óskýrir. Fjöldi stjórnmálaflokka verður til og erfitt verður um myndun ríkisstjórna. Um þetta eru mörg dæmi frá öðrum löndum.
Landsbyggðarfólk láti ekki þetta yfir sig ganga
Þess vegna er svo mikilvægt að landsbyggðarfólk sem hyggst kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni ( sem nær væri þó að kalla skoðanakönnun) láti í sér heyra um þetta atriði. Hafna ber 5. spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni/ skoðanakönnuninni. Því verði hún samþykkt og rati þetta ákvæði inn í nýja stjórnarskrá, mun það hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir landsbyggðina.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook