Heitt fótabað og kaldir fætur

Það var mikið um dýrðir þegar ferðaþjónustan og stjórnvöld tóku saman höndum í kjölfar eldgosanna á Suðurlandi, til þess að snúa vörn í sókn og blásið var til markaðsátaks í ferðamálum á Íslandi. Forsetinn bauð upp á kleinur á Bessastöðum og ráðherra ferðamála bauð erlendum ferðamönnum að setjast með sér í heitt fótabað.

585616 Þessa mynd tók Golli fyrir Morgunblaðið af fótabaðinu fræga. En nú er öldi önnur.

En nú er öldin önnur. Í stað hins heita fótabaðs, sem ráðherann bauð upp á er ferðaþjónustan komin með kalda fætur vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Fjórföldun virðisaukaskatts á gistingu og afnám ívilnana fyrir bílaleigur hefur framkallað hroll í ferðaþjónustunni og góð sambúð við stjórnvöld hefur nú breyst í hörð átök og það að vonum.

Það er ljóst að hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna ganga þvert á þau helstu markmið sem við höfum sett okkur í ferðamálum.

Í fyrsta lagi þá höfum við kappkostað að fá hingað til lands fleiri ferðamenn. Það hefur gengið vel. Og á síðustu árum hefur ferðaþjónustan vaxið hratt og vel og er orðin ein helsta burðarstoðin undir útflutningstekjum okkar. Störfum hefur fjölgað hratt í greininni og er ein fárra dæma um atvinnugrein í landinu þar sem það hefur gerst.

Athuganir þær sem ríkisstjórnin hefur látið gera ríma við athuganir ferðaþjónustunnar. Aðgerðir ráðamanna munu leiða til þess að það mun hægja á vexti í greininni, atvinnusköpunin verður minni, afkoman verri og fjárfesting þar með minnka.

Í annan stað hefur verið að því stefnt að lengja ferðamannatímann. Boðaðar aðgerðir munu vinna gegn því.

Í þriðja lagi hefur verið til þess ríkur vilji að dreifa betur ferðamannastraumnum og stuðla að vexti ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hamla gegn því. Annars vegar vegna þess að ferðaþjónustan á landsbyggðinni býr við styttri starfstíma og lakari nýtingu, sem gerir fyrirtækin  þar mjög viðkvæm fyrir svona stórkarlalegum skattabreytingum.

En einnig vegna þess að um 40% erlendra ferðamanna ferðast um á bílaleigubílum og boðaðar breytingar gagnvart þessari atvinnugrein munu leiða til þess að ferðamenn fara síður í lengri ferðir. Bílaleigurnar munu nefnilega reyna með breyttum gjaldskrám, að stuðla að minni keyrslu bílanna, til þess að nýta hvern bíl lengur. Það veldur því að ferðamenn munu fremur skottast um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni og hætta sér síður í lengri ferðalög.

Ferðaþjónustan hefur sannarlega vaxið, en afkoman er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Reksturinn skilar bara um 6% upp í fjármagnsliði, sem er of lítið. 17% hækkun ofan á gistingu verða menn að velta út í verðlagið. Bílaleigurnar segjast þurfa að hækka sín verð um 27%. Þetta mun hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar og valda öllum – þar með talið ríkissjóði -  stórtjóni að minnsta kosti til lengri tíma litið.

PS

Það sýnir svo hvað örlögin er gráglettin að það er sami einstaklingur, Katrín Júlíusdóttir, sem bauð með sér gestum í heitt fótabað forðum og ber nú ábyrgð á fjárlagagerð þar sem gert er ráð fyrir að vegið sé að ferðaþjónustunni í landinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband