11.10.2012 | 17:24
Ný tegund af loforðum sem hægt er að svíkja
Ríkisstjórnin hefur verið gríðarlega afkastamikil þegar komið hefur að því að brjóta samninga og svíkja gefin loforð. Svona á milli þess sem ráðherrarnir eru að brjóta jafnréttislögin.
Einu sinni töldu þeir sem áttu í samskiptum við ríkisstjórnina að orð ættu að standa. Þetta héldu til dæmis aðilar vinnumarkaðarins af því að þeir áttu því að venjast í samstarfi við ríkisstjórnin í gegn um áratugina.
Munnleg loforð eru svkin, skrifleg líka. Ríkisstjórnin er að verða uppiskroppa með aðferðir við loforð sem hún ætlar að svíkja
En þessi ríkisstjórn hefur tekið upp nýja hætti. Og fljótlega áttuðu menn sig á því að það þýddi ekki að treysta orðum ráðherranna. Jafnvel þó þau væru sögð í margra viðurvist.
Eftir það var farið að heimta skrifleg loforð. Og það stóð ekki á þeim. Stöðugleikasáttmálinn frægi er gott dæmi um það. Fulltrúar atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar rituðu nöfnin sín ásamt forystumönnum ríkisstjórnarinnar. En sjá. Það dugði ekki til. Ríkisstjórnin sveik það.
Alveg eins og annað sem líka var skrifað á blað. Yfirlýsingin sem fylgdi síðustu kjarasamningunum. Niðurstaða sáttanefndarinnar í sjávarútvegsmálunum. Vinna starfshóps sem ríkisstjórnin bað um að ynni að sjávarútvegsmálum í sumar. Allt var svikið, þó rétt sé að halda því til haga ríkisstjórnin hefur ekki haft tóm til þess ennþá að svíkja samkomulagið í sjávarúvegsmálunum frá því í sumar. En það sem við vitum þó er að ráðherrar hafa hoft góð orð um að svíkja það líka, eins og við höfum séð í fjölmiðlum.
Munnleg loforð eru sem sagt svikin og einnig hin skriflegu. Ríkisstjórnin er þess vegna að verða uppiskroppa með aðferðir við loforð sem hún ætlar að svíkja.
En þetta horfir allt til bóta. Nú er nefnilega farið að tala um nýja tegund af loforðum. Svo kallað "þegjandi samkomulag", sem Álfheiður Ingadóttir formaður þingflokks VG sagði frá á Alþingi í gær.
Enginn kannast að vísu við neitt slíkt. Enginn veit hvernig svona þegjandi samkomulag er gert. Kemur fólk saman, þegir og kinkar svo kolli? Eða hvernig gefa menn slík loforð og fyrirheit og samninga?
En ríkisstjórnin er þá búin að uppgötva nýja tegund af loforðum sem hún getur þá farið að svíkja. Henni leggst alltaf eitthvað nýtt til.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook