17.10.2012 | 09:08
Þau þora ekki í umræðu um stjórnarskrána
Það sætir undrun hversu illa það virðist ganga að fá efnislega umræðu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ósk okkar sjálfstæðismanna um að ræða þessi mál áður en skoðanakönnunin/ þjóðaratkvæðagreiðslan um valin atriði úr tillögum ráðsins fer fram, var tekið af mikilli fjandsemi úr stjórnarflokkunum og fylgihnetti þeirra Hreyfingunni.
Alþingi hefur haft þetta mál til meðferðar í meira en ár. Á þeim tíma hefur málið tæpast verið rætt efnislega. Meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar hefur stritast við að semja spurningar á hnjákollunum á sér, en engin efnisleg vinna hefur farið fram
Ástæðan er einföld. Þau þora ekki í umræðuna. Þau óttast efnislega umfjöllun. Vita nefnilega ekki sitt rjúkandi ráð og hafa ekki hugmynd um hvernig ljúka eigi þessu máli.
Álfheiður Ingadóttir þingflokksformaður VG kom til dæmis í útvarpið í gær og þar mátti glögglega merkja angist hennar. Hún hafði allt á hornum sér. Fann málinu og málatilbúnaðinum allt til foráttu.
Þetta kemur kannski ekki á óvart. Foringi VG, Steingrímur J. Sigfússon treystir sér ekki til þess að upplýsa um afstöðu sína til veigamikilla tillagna stjórnarlagaráðsins og þar með til grundvallarspurningar sem verið er að leggja fyrir þjóðina. Þetta kom fram á Alþingi þegar hann neitaði að upplýsa afstöðu sína til atkvæðavægisins. Hingað til hefur afstaða hans verið skýr. Hann hefur stutt það fyrirkomulag sem er núna og hefur gilt í áratug og ekki lagt til breytingar. Núna fer þessi garpur eins köttur í kring um heitan graut, þegar þessi mál eru rædd.
Auðvitað er það sjálfsagt að þingið ræði þetta mál núna. Skárra væri það. Og auðvitað er það eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á tillögum stjórnarlagaráðs. Annað væri auðvitað fráleitt. Alþingi er stjórnarskrárgjafinn, samkvæmt stjórnarskránni. Það er á Alþingi sem þessum málum verður ráðið, áður en þjóðin tekur afstöðu til stjórnarskrárbreytinganna.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon er spurður um afstöðu sína til atkvæðavægisins, fer sá mikli grpur í kring um málið eins og köttur í kring um heitan graut
Alþingi hefur haft þetta mál til meðferðar í meira en ár. Á þeim tíma hefur málið tæpast verið rætt efnislega. Meirihluti stjórnskipunar og eftirlitsnefndar hefur stritast við að semja spurningar á hnjákollunum á sér, en engin efnisleg vinna hefur farið fram. Og jafnvel við spurningasmíðina var meirihlutanum svo mislagðar hendur, að enginn getur fullyrt um hvað þessar spurningar þýða og þar með ekki hvernig túlka beri niðurstöðuna nú um helgina, hver svo sem hún verður.
Það þarf því engan að undra svo sem að ábyrgðarmenn málsins og þess klúðurs sem það er komið í, veigri sér við að fara í umræðu um málið. Þeir meta stöðuna alveg rétt. Málið þolir ekki umræðu, af þeirra hálfu, eins og búið er að forklúðra því.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook