21.10.2012 | 12:29
Aðförin að Ríkisendurskoðun er aðför að Alþingi
Alvarleg atlaga er nú gerð að Ríkisendurskoðun, eins og við höfum séð á síðustu vikum. Sú atlaga beinist ekki bara að stofnuninni. Þetta er í rauninni ekki síður atlaga og hrein aðför að Alþingi, sjálfstæði þess og eftirlitshlutverki sem okkur alþingismönnum er ætlað að rækja og margir kalla eftir að við sinnum í vaxandi mæli.
Með þeirri furðulegu atlögu sem nú er verið að gera gagnvart þessari mikilvægu stofnun, Ríkisendurskoðun, er ekki einasta verið að veikja hana heldur líka stöðu Alþingis. Finnst mönnum þar virkilega vera á bætandi?
Það hefur verið mjög dapurlegt að fylgjast með þessari aðför. Eitt er auðvitað að vera óánægður með efnistök stofnunarinnar í einstökum verkum en að bregðast við eins og gert hefur verið og setja Ríkisendurskoðun í raun og veru í frost er tilraun til þöggunar.
Þetta er mjög alvarlegt mál því með þessu er komið í veg fyrir að Ríkisendurskoðun geti sinnt eðlilega sínu lögbundna hlutverki. Og makalaust er að það skuli einmitt vera þingmenn, - fólkið sem lögin setur, - sem beiti sér í raun gegn því að Ríkisendurskoðun geti sinnt því hlutverki sem henni er ætla að sinna, samkvæmt lögum sem Alþingi setur.
Í lögum um Ríkisendurskoðun segir að hún skuli endurskoða ríkisreikning og enn fremur að hún skuli annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Augljóst er að það getur hún ekki gert ef hún fær ekki í hendur fjáraukalög til að fylgjast með því sem gerst hefur frá því að fjárlög voru samþykkt og þar til fjáraukalög eru síðan lögð fyrir Alþingi. En eins og kunnugt er hefur meirihluti fjárlaganefndar meinað Ríkisendurskoðun að fá fjáraukalagafrumvarp til meðferðar, eins og vera ber þó samkvæmt lögum.
Þetta er mjög alvarlegt. Við skulum gá að því að Ríkisendurskoðun hefur mjög sérstaka stöðu í stjórnsýslunni. Hún starfar á vegum Alþingis og er engum háð í störfum sínum. Þannig var þetta ekki áður. En á þessu var gerð breyting, þegar Ríkisendurskoðun var með lögum gerð að sjálfstæðri stofnun sem heyrði beint undir þingið.
Þessi breyting á starfsemi Ríkisendurskoðunar á sínum tíma var gerð að gefnu tilefni. Ríkisendurskoðun hafði áður verið hluti af framkvæmdarvaldinu, en með þessum breytingum var verið að skapa henni sjálfstæði og um leið að efla eftirlitshlutverk hennar og þar með eftirlitshlutverk Alþingis, sjálfstæði þess og stjórnsýslulega stöðu. vegna þess að Ríkisendurskoðun heyrir undir
Með þeirri furðulegu atlögu sem nú er verið að gera gagnvart þessari mikilvægu stofnun, Ríkisendurskoðun, er ekki einasta verið að veikja hana heldur líka stöðu Alþingis. Finnst mönnum þar virkilega vera á bætandi?
Og þá sjáum við loksins heildarsamhengið. Hér er verið að slá skjaldborg um framkvæmdavaldið, ráðaherraræðið og ofríkið. Ríkisendurskoðun er orðinn að einhverjum blóraböggli og leiksoppi, í tafli stjórnarherranna.
Þetta er enn eitt dæmið sem við höfum séð á undanförnum missirum um ofríki framkvæmdavaldsins þar sem brugðist er við með hörku gagnvart öllum þeim sem ekki sitja og standa eins og stjórnarherrarnir kjósa. Nú dynja höggin á Ríkisendurskoðun, en hver verður fyrir þeim næst? Verður það kannski umboðsmaður Alþingis?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook