Sligandi húshitunarkostnaður er þjóðfélagsmein

 

Neikvæð byggðaþróun er eitt alvarlegasta þjóðfélgasmein okkar Íslendinga. Eins og Þóroddur Bjarnason prófessor við  Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar hefur bent á er byggðaþróunin á Íslandi alls ekki einföld. Á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun, sums staðar á landsbyggðinni hefur fólki líka fjölgað. En á tilteknum svæðum hefur fólki fækkað.

olafsvik Frá Ólafsvík. 10% þjóðarinnar búa við sligandi húshitunarkostnað. Okkur ætti ekki að vera skotaskuld úr að bæta þar úr

 

Það er því augljóst að byggðastefna okkar verður meðal annars að beinast með sérstökum hætti að þeim svæðum, þar sem fólki hefur beinlínis fækkað. Það þarf að taka málin öðrum tökum þar sem þannig háttar til.

Einn þátturinn í þessu máli er þróun lífskjara. Fólk flytur frá þeim svæðum, þar sem kjörin eru verri og lífsafkoman því lakari.

Ein ástæðan er húshitunarkostnaðurinn. Það er vandamál sem um 10% þjóðarinnar glímir við og þegar grannt er skoðað þá virðist einmitt vera fylgni á milli íbúaþróunar og húshitunarkostnaðar. Einsýnt er því að við reynum að ráðast á þann vanda. Þegar við blasir að hann einskorðast  við svo lítinn hluta þjóðarinnar, er okkur vitaskuld ekki skotaskuld að bæta þarna úr.

Stundum gengið vel - stundum illa

Sú leið sem við höfum farið í gegn um tíðina er að greiða niður húshitunarkostnað  þar sem hann er hæstur. Stundum hefur gengið vel, en stundum miður, eins og HÉR má sjá. Og síðustu árin hefur mjög hallað á. Húshitunarkostnaður hefur HÆKKAÐ um allt að 40% að raungildi á svo kölluðum köldum svæðum, á meðan hann hann hefur LÆKKAÐ að raungildi til dæmis á höfuðborgarsvæðinu um 20%. Þetta er þróun sem ekki er hægt að búa við.

Nefnd skipuð

Ég beitti mér fyrir þingsályktunartillögu um að við reyndum að finna leiðir til þess að bæta úr og var þar sérstaklega bent á,  skoðað yrði „hvernig unnt sé að stuðla að varanlegri lækkun húshitunarkostnaðar á svokölluðum „köldum svæðum“. Lagði ég áherslu á að fá þverpólitíska samstöðu um málið. Það tókst og þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum fluttu málið með mér. Alls vorum 16 þingmenn sem að málinu stóðu. Málið var lagt fram á Alþingi 27. janúar 2011

Þá gerðist það að ríkisstjórnin fundaði  á Ísafirði, nokkru síðar. Þar var ákveðið að fara svipaða leið og við höfðum lagt til. Nefnd sem skipuð fulltrúum stjórnvalda og sveitarfélaga þar sem húshitunarkostnaður er hvað hæstur, var sett á laggirnar. Hún skilaði tillögum í árslok í fyrra. Megin efni þeirra var að greiða skyldi niður dreifingarkostnað vegna að fullu, en í dag er hann greiddur niður að 60 prósentum. Þetta átti að fjármagna með því að leggja 10 aura á kílówattstund selds rafmagns.

Því miður hefur fátt gerst síðan. Þetta mál er ekki á lista þeirra 177 þingmála sem ríkisstjórnin lagði fram yfir forgangsmál sín nú í þingbyrjun í haust. Þrátt fyrir fyrirheit um að kynntar yrðu tillögur um breytt fyrirkomulag þessara mála.

Frumvarp lagt fram

 Því greip ég til þess ráðs að semja frumvarp, sem byggðist algjörlega á tillögum nefndar ríkisstjórnarinnar og óskaði eftir meðflutningsmönnum að málinu hjá fulltrúum allra þingflokka og framboða á Alþingi. Viðtökurnar voru ágætar. Málið var lagt fram á Alþingi 18. október sl. Við flutningsmenn þess erum 14 úr fjórum stjórnmálaflokkum.

Vonandi verður frumvarpið  til þess að hreyfa við stjórnvöldum. Við verðum að komast upp úr því fari sem húshitunarmálin eru í. Það þarf að finna á því varanlega lausn. Frumvarpið er tilraun til þess. Smáskammtalækningar á borð við að hækka framlög til málaflokksins í einstökum fjárlagaafgreiðslum, er redding, en engin lausn.

Kjarni frumvarpsins felur það í sér að dreifingarkostnaðurinn á orkunni sé greiddur af öllum orkunotendum; ekki bara sumum eins og núna.

Þetta yrði óneitanlega mikið framfaraspor. En um leið vonandi árétting á því að um sé að ræða verkefni sem við deilum ekki um á pólitískum vettvangi. Þvert á móti geti menn sameinast um að leysa úr þessu máli og leggi þannig sameiginlega að mörkunum við að stuðla að betri lífskjörum þess fólks sem í dag býr við svo sligandi húshitunarkostnað, sem við þekkjum öll og er algjörlega óviðunandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband