18.2.2007 | 20:12
Eru þjóðaratkvæðagreiðslur felustaður?
Einn mesti galli við þjóðaratkvæðagreiðslur, er að þær eru mikil freisting fyrir stjórnmálamenn að skjóta sér undan því að taka afstöðu. Þetta er vel þekkt fyrirbrigði í öðrum löndum. Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa því tilhneigingu til að gera línur stjórnmálanna óskýrari. Þjóðaratkvæði geta þess vegna stuðlað að óskýrara og ólýðræðislegra vali fyrir vikið. Vegna þess að í stjórnmálum eiga kjósendur kröfu á að línur séu skýrar.
Helsta réttlæting stjórnmálaflokkanna og ástæðan fyrir því að þeir eru til, er að þeir skerpa hinar pólitísku línur og gera fólki betur kleyft að taka afstöðu til meginlína í stjórnmálum. Án stjórnmálaflokka væru kjósendur að taka afstöðu til 63 einstaklinga til setu á Alþingi og engar meginlínur væru sjáanlegar.
Þessa dagana erum við einmitt að verða vitni að því hvernig stjórnmálamenn eru að reyna að skáskjóta sér framhjá afstöðu með því að vísa til almennrar atkvæðagreiðslu. Ætlunin er að Hafnfirðingar kjósi um stækkun álversins í Straumsvík. Og sjá. Forystumenn í bæjarmálum Hafnarfjarðar, svo sem bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson, kemur í sjónvarpið og víkur sér undan því að taka afstöðu til málsins.
Þetta er auðvitað alveg fáránlegt. Vitaskuld hefur pólitískur forystumaður, eins og pólitískt kjörinn bæjarstjóri í Hafnarfirði, skoðun á því hvort stækka beri helsta atvinnufyrirtækið í bænum hans. Ekki síst þegar um er að ræða fyrirtæki á borð við álver, sem hafa ævinlega verið umdeild í samfélaginu. En nú er greinilegt að nýta á atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði eins og felustað, svo ekki þurfi að ljóstra upp skoðun sinni. Ástæðan er sú að framkvæmdin er umdeild, vitað um skiptar skoðanirr samfylkingarfólks í Hafnarfirði og hin yfirlýsta stefna Samfylkingarinnar er andstæð stækkuninni í Straumsvík.
Í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust atti Þórunn Sveinbjarnardóttir alþm. kappi við keppinauta sem margir hverjir földu sig á bak við atkvæðagreiðsluna og gáfu ekki upp afstöðu sína í umdeildu máli. Þetta gagnrýndi Þórunn réttilega í athyglisverðri grein í Blaðinu 4. nóvember sl. Undir þá gagnrýni er rétt að taka.
Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórnum og þjóðþingum eiga ekki að víkja sér undan afstöðu og skríða í skjól almennrarar atkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur geta í raun verið öndverðar lýðræðishugsjóninni og því er engan veginn gefið að kalla eigi eftir þeim hvenær sem leysa þarf úr viðkvæmu eða flóknu úrlausnarefni. Það er eðlilegt að íbúar Hafnarfjarðar fái að vita um afstöðu kjörinna fulltrúa sinna í máli sem verið er að kjósa um.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook