30.10.2012 | 22:56
Stórkostleg saga af verðmætasköpun
Sjávarútvegur okkar skarar fram úr, hvort sem er í samanburði við aðrar innlendar atvinnugreinar eða í alþjóðlegum samanburði við sjávarútveg annarra landa.
Sjávarútvegur okkar skarar fram úr. Þetta er niðurstaða skýrslu hins heimsþekkta fyrirtækis McKinsey, sem kynnt var í dag.
En óhamingju okkar verður allt að vopni. Nú eru uppi hér á dögum stjórnvöld, sem vinna að því leynt og ljóst að skemma þennan árangur. Eyðileggja það einstaka tækifæri sem sjávarútvegurinn færir okkur sem þjóð, með vanhugsuðum áformum sem hafa birst í frumvörpum þeirra um sjávarútvegsmál.
Þeir McKinsey - menn sýna fram á að sjávarútvegurinn hafi verið hornsteinn útflutnings okkar og í raun þeirra góðu lífskjara sem hér hafa verið, ásamt annarri auðlindanýtingu í landinu. Þessar atvinnugreinar standi undir 70-80% útflutningsins, skapi mjög verðmæt störf og leiði af sér gríðarleg fjárfestingartækifæri.
Hvað sjávarútveginn varðar sérstaklega er bent á að hann sé sem fyrr hryggjarstykkið í hagkerfi okkar og segja jafnframt: Ekkert sjálfstætt ríki skapar jafn mikil hlutfallsleg verðmæti út úr fiskveiðum sem Ísland.
Þeir vekja athygli á að mikilvægi greinarinnar hafi leitt til þess að við höfum búið þróað sjálfbært fyrirkomulag sem komi í veg fyrir ofveiði og stuðli að hagkvæmni. Einn kaflann í umfjöllun sinni, nefna þeir: Fiskiðnaðurinn er hin stórkostlega saga af framleiðni (verðmætasköpun).
Síðan rekja þeir í all nokkru máli stöðu greinarinnar. Benda á það virðisskapandi fyrirkomulag, sem hafi þróast með samþættingu veiða, vinnslu og markaðsstarfs og sýna fram á að framleiðni ( verðmætasköpunin) í íslenskum sjávarútvegi sé mun betri en hjá frændum vorum Norðmönnum, hinni miklu sjávarútvegsþjóð og keppinaut okkar á erlendum mörkuðum.
Þessi lýsing alþjóðlegrar úttektar er sláandi og ætti auðvitað að verða lánlausum stjórnvöldum okkar einhver lexía. En líklega er það borin von
Ógæfa okkar ríður nefnilega ekki við einteyming. Stjórnvöld vinna nú að því leynt og ljóst að veikja einmitt sjávarútveginn; atvinnugreinina sem er hryggjarstykkið í efnahagslífi okkar. Atvinnugreinina sem skarar fram úr. Atvinnugreinina sem sýnir betri árangur en jafnvel þeir sem best standa sig í heiminum á þessu sviði. Og atvinnugreinina sem skapar góð störf, hlutfallslega góð laun og góða arðsemi af fjárfestingum sínum, rétt eins og McKinsey skýrslan sýnir fram á.
Það er eins og þessu fólki sé ekki sjálfrátt.
Að ráðast á þá atvinnugrein sem stendur sig best, jafnt í innlendum samanburði sem og í alþjóðlegum samanburði er vitaskuld alveg gjörsamlega óskiljanlegt. Þessi áform stjórnast bersýnilega af annarlegum hvötum, rekin áfram af makalausri heift og fullkomnu skilningsleysi á hagsmunum þjóðarinnar. Og fórnarlambið í þessari herferð er ekki bara sjávarútvegurinn, heldur fyrst og síðast almenningur í landinu, sem fær í hausinn lakari lífskjör. Allt í boði Jóhönnu og Steingríms.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook