Menn flutu sofandi að feigðarósi

 

 

Með skammtímaráðstöfunum er búið að koma í veg fyrir stöðvun innanlandsflugs til fimm staða á landinu að sinni. En þetta er bara skammtímaráðstöfun. Vandinn er í rauninni óleystur og verður ekki lestur nema með frekari aðgerðum, stefnubreytingu stjórnvalda og varanlegri aðgerðum sem tryggir innanlandsflugið.

Lending á Ísafirði Innanlandsflugið er skattpínt, þó um sé að ræða almenningssamgöngur

Tilkynning Flugfélagsins Ernis í fyrrakvöld um að allt stefndi í að flug legðist niður til Bíldudals, á Gjögur, Húsavík, Hornafjörð og Vestmannaeyjar jafnvel nú um mánaðarmótin, kom auðvitað eins og þruma úr heiðskíru lofti, en var þó þrátt fyrir allt alls ekki óvænt. Það er búið að vara lengi við hinni háskalegu þróun sem er að verða í innanlandsfluginu. Það gerði ég til dæmis tvisvar með því að taka þessi mál upp í sérstakri umræðu á Alþingi.

Ítrekað rætt og sérstakar umræður

Strax 31. janúar 2011 tók ég þessi mál upp, sem HÉR má sjá. Og aftur vakti ég máls á þessu í sérstakri umræðu  rúmu ári síðar eða 15.febrúar á þessu ári, sem HÉR má sjá. Í bæði skiptin varaði ég mjög við þeirri þróun sem við blasti. Því miður kusu menn að fljóta sofandi að feigðarósi og brugðust ekki við þeim váboðum sem hvarvetna voru á lofti í þessum málaflokki.

Skylt er þó þess að geta þess að innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, Ögmundur Jónasson lýsti skilningi á stöðunni og hefur lagt sig fram í þeirri stöðu sem upp kom á síðustu sólarhringum. En ljóst er að hann hefur ekki notið stuðnings stjórnarliða sem dygði til þess að bregðast við vandanum.

Afleiðingarnar sjáum við núna. En afleiðingarnar birtast líka í því að dregið hefur úr flugstarfsemi á ýmsa þá staði sem notið hafa ríkisstuðnings. Flug til Sauðárkróks hefur verið lagt niður, dregið hefur verið úr flugi á Gjögur yfir sumartímann og því sinnt með minni vélum. Þar er ekki við flugrekstraraðilann að sakast. Það er ljóst að fyrir þessu eru pólitískar ástæður; ákvarðanir um að láta sem ekkert sé, þó veruleikinn sýni allt annað.

Við vitum líka að fargjöld hafa stórum hækkað og því hefur orðið örðugara fyrir fólk að nýta sér innanlandsflugið. Rekstrarskilyrði innanlandsflugsins almennt hafa stórum versnað.  Það hefur sem sagt stöðugt sorfið að þessum gríðarlega mikilvæga samgöngumáta sem innanlandsflugið er. Þetta er grafalvarlegt mál.

Innanlandsflugið er skattpínt

Má í því sambandi benda á, sem ég hef marg oft gert, að innanlandsflugið er í raun almenningssamgöngur, en lýtur hins vegar sívaxandi skattheimtu, sem ekkert er lát á. Sjá einnig HÉR.  Skattar og gjöld, á borð við kolefnisskatt, lendingargjöld, farþegaskatta, leiðarflugsgjöld hafa hækkað um allt að hálfum milljarði á örstuttum tíma. Þessar hækkanir nema einar og sér sjálfsagt um 10% af heildartekjum innanlandsflugsins. Og enn er boðað að álögur muni hækka á næsta ári.

images Flugfélagið Ernir flýgur m.a á marga minni staði. Enn er óleystur vandinn, sem hefur birst okkur síðustu sólarhringana

Til viðbótar við þetta koma síðan aðrar kostnaðarhækkanir. Eldsneytisverð veður upp, margs konar aðföng hafa hækkað og margir kostnaðarliðir eru jafnframt í erlendum myntum, og byrðunum af þeim verður ekki varpað út í verðlagið nema að hluta. Afganginn bera rekstraraðilarnir.

Við þessar aðstæður er það vitaskuld óðs manns æði að auka byrðar á innanlandsflugið eins og gert hefur verið og að er stefnt í frekari mæli. Og því miður þá er ekki búið að leysa vandann þó tímabundin grið hafi verið gefin. Það nægir ekki að stjórnvöld gefi út yfirlýsingar um að flug verði tryggt. Stjórnvöld verða að breyta um kúrs gagnvart innanlandsfluginu, sem er lífæð margra byggða. Það verður sem sagt að finna varanlega lausn á þessu grafalvarlega máli; skammtímareddingar geta veitt okkur tíma til slíkra ákvarðana, en þær leysa ekki vandann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband