6.11.2012 | 22:12
Það treystir enginn svardögum þeirra
Við allar venjulegar aðstæður ætti afdráttarlaus yfirlýsing ráðherra, svo ekki sé nú talað um ráðherra sem er formaður annars stjórnarflokksins, að jafngilda loforði sem menn gætu treyst. Þegar Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega og nýsköpunarráðherra og formaður VG lýsir því yfir að ekki komi til greina að heimila innflutning á lifandi dýrum til landsins, ættu menn því ekki að þurfa að velkjast í neinum vafa.
Við munum öll heitstrengingar Steingríms J og félaga fyrir kosningar. - Aldrei inn í ESB, sögðu þeir í apríl 2009, en samþykktu svo aðildarumsókn í júní.
En því er ekki að heilsa. Menn treysta ekki yfirlýsingum ráðherrans, né annarra forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar. Sporin hræða. Dæmin um að ekkert hafi verið að marka orð ráðherra ríkisstjórnarinnar eru orðin svo mörg, að enginn lætur sér til hugar koma að treysta á svardaga þeirra; jafnvel þó settir séu fram með afdráttarlausum hætti.
Og við munum líka öll heitstrengingar Steingríms J og félaga fyrir kosningar. - Aldrei inn í ESB, sögðu þeir í apríl 2009, en samþykktu svo aðildarumsókn í júní. Frá þeim tíma hefur engan bilbug verið að finna á VG. Í þessu máli hefur slefan á milli þeirra og Samfylkingarinnar aldrei slitnað. Hvernig dettur þá nokkrum manni í hug að einhver treysti svardögum þeirra nú? Þau fyrirheit verða örugglega orðin gleymd og grafin áður en jólin verða hringd inn.
Nú erum við þar stödd í aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu, að taka þarf afstöðu til svo nefnds 12. kafla, sem meðal annars fjallar um spurninguna um hvort flytja megi inn lifandi dýr. Hingað til hefur það verið ágreiningslaust að mestu, að slíkt munum við ekki heimila. Við þekkjum það af fyrri reynslu að innflutningur lifandi dýra getur haft stór háskalega smithættu í för með sér fyrir okkar búfjárstofna. Þeir hafa lifað hér um aldir í einangrun og eru mjög næmir fyrir hvers konar smiti. Það er líka álit sérfræðinga á þessu sviði sem hafa tjáð um málið í gegn um tíðina og nú nýverið alveg sérstaklega.
Mikilli undrun sætir ef ekki næst samkomulag um að setja á blað sem gallharða samningsafstöðu okkar að ekki komi til greina að heimila innflutning á lifandi dýrum
Þess vegna er það sjálfgefið að afstaða okkar Íslendinga verði óbreytt. Það komi ekki til greina að heimila innflutning á lifandi dýrum.
Evrópusambandið krefst þess á hinn bóginn að allar slíkar hindranir séu afnumdar á milli aðildarríkja. Það er einn meginþátturinn í evrópusamstarfinu og það vissu allir frá upphafi; eða áttu minnsta kosti að vita.
Þess vegna dugir einfaldlega ekkert minna en að segja afstöðu okkar skýrt og skorinort - og hún er þessi: Innflutningur á lifandi dýrum hingað til lands er óhugsandi, kemur ekki til greina og er ekki umsemjanlegur.
Það sætir því mikilli undrun ef ekki næst samkomulag um að setja slíkan texta á blað fyrir samningamenn okkar til þess að steðja með til Brussel.
Hér dugir nefnilega ekki nein tæpitunga,ekki frekar en þegar við förum að setjast niður við að setja á blað samningsmarkmið okkar í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. Eða telja menn að nýting sjávarauðlindarinnar sé umsemjanleg, eða ýmsir stórir þættir í landbúnaðarmálunum? Auðvitað ekki.
Þess vegna ríður nú á að skapa strax fordæmið, sem fylgt verður þegar að öðrum stórum og viðkvæmum samningsköflum kemur.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook