Ómálefnalegt kjaftbrúk gegn málefnalegri umræðu

 

Það sætir undrun og veldur vonbrigðum hversu stjórnlagaráðsfulltrúar og ýmsir þingmenn taka því illa þegar tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár eru gagnrýndar með málefnalegum hætti. Fyrir fram hefði mátt ætla að slíkri gagnrýni yrði svarað málefnalega og því fagnað að efnislegar umræður ættu sér stað um þetta mikilvæga mál. En því er ekki að heilsa. Þegar slík gagnrýni kemur fram er henni svarað með þjósti, kjaftbrúki, uppnefnum og heift. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra og getur ekki verið viðunandi þegar svo mikið mál er í húfi.

stjornlagarad

Þetta er líka undrunarefni vegna þess að úr ranni stjórnlagaráðsins hefur heyrst hvatning um bættan umræðustíl, málefnalegri skoðanaskipti og efnislega umfjöllun. Þess vegna er það makalaust að svör við efnislegum aðfinnslum, skuli einkennast af slíkri málefnalegri fátækt sem raun ber vitni um.

Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri gagnrýndi tillögur um fyrirkomulag þingkosninga eins og þær birtust frá stjórnalagaráðinu. Þetta var málefnaleg gagnrýni og sýndi í raun fram á að tillögur stjórnlagaráðs leiddu til mikils ójafnvægis í garð íbúa landsbyggðarinnar. En hvernig var þessu svarað?

Með heitingum og heift. Hvergi bólaði á málefnalegum sjónarmiðum.

Í síðustu viku var efnt til málþings um tillögur stjórnlagaráðsins í Háskóla Íslands. Sérfræðingar kvöddu sér hljóðs, gagnrýndu ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs með málefnalegum hætti. Og hver voru þá svörin?

Uppnefni, stóryrði og gaspur um að gagnrýnin væri alltof seint fram komin, eins og heyra mátti í málflutningi Gísla Tryggvasonar stjórnarlagaráðsmanns.

Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur.

Tillögur stjórnlagaráðsins hafa komið fram. Þær hafa að sönnu velkst um í þingnefnd Alþingis, af því að stjórnarmeirihlutinn veit ekki sitt rjúkandi ráð. Lítil sem engin efnisumræða hefur farið fram. Ekki vegna þess að eftir því væri ekki kallað. Heldur vegna þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga. Þar á bæ voru menn uppteknir við að föndra við spurningar til þess að leggja fyrir þjóðina og klúðruðu því máli trekk í trekk.

Þegar spurningarnar komu fram voru þær í slíku skötulíki að þær gáfu alltof takmarkaða leiðsögn um framhaldið. Spurt var um sumt, en alls ekki annað. Ekki var spurt um mikilvæga þætti tillagna stjórnlagaráðsins og spurningarnar þannig orðaðar að þær voru galopnar fyrir mismunandi túlkun, eins og við höfum séð.

Þess hefði mátt vænta að áhugamenn um breytta stjórnarskrá hefðu því fagnað almennri, opinni og málefnalegri umræðu, þegar hún fór þá loks af stað fyrir alvöru. Því var hins vegar ekki að heilsa.

Viðbrögðin við málefnalegum ábendingum og gagnrýni, leiddu okkur því lítt áfram við hið mikilvæga verkefni, sem við okkur blasir. Það er hryggilegt að svona sé málum komið, þegar við fjöllum um sjálfa stjórnarskrána.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband