20.11.2012 | 16:49
Ólíkt hafast þeir að
Það væri fróðlegt fyrir þann stjórnarmeirihluta sem nú ræður á Alþingi að skoða sig aðeins um og velta fyrir sér hvernig aðrar þjóðir haga skipulagi sínu á sjávarútvegi. Þar er að sönnu ekki allt til fyrirmyndar og færa má rök fyrir því að þær þjóðir gætu sitthvað lært af okkur. En það breytir því ekki að gagnlegt væri fyrir okkar stjórnvöld að leita til þjóða sem gera góða hluti í sjávarútveginum og hafa farið í gegn um svipaða umræðu og hér hefur orðið á sjávarútvegssviðinu.
Ríkisstjórnin keyrir sjávarútvegsmálin áfram á grundvelli kreddusjónarmiða og án faglegs undirbúnings og setja grundvallaratvinnuveg okkar í fjötra óvissu.
Helgi Áss Grétarsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands, fjallaði um það í grein í Fiskifréttum hvernig Norðmenn hafa nálgast sína sjávarútvegsumræðu og hvernig það er í hróplegu ósamræmi við það sem við þekkum hér.
Hér á landi hafa stjórnvöld leitast við að knýja fram mis gáfulegar breytingar á sjávarútveginum okkar í miklum ágreiningi. Hugmyndir sínar hafa þau lagt fram án þess að reikna út afleiðingarnar; hvorki fyrir einstakar byggðir, útgerðarform, kjör starsfólks í sjávarútvegi og hvað þá fyrir þjóðarhag. Þeir útreikningar, -að svo miklu leyti sem þeir hafa á annað borð verið framkvæmdir hafa allir farið fram eftir á. Í öllum tilvikum hafa tillögur og frumvörp fengið falleinkunn. 0,0 í einkunn. Flóknara er það nú ekki.
En stjórnvöld sitja fast við sinn keip.
Í Noregi er ríkisstjórn systurflokka Samfylkingar og VG. Þar hugðu mennað breytingum á fiskveiðistjórnuninni. Ríkisstjórnin hafði sínar hugmyndir um breytingar. Þessar hugmyndir voru skoðaðar, af sérfræðingum, hagsmunaaðilum og öðrum. Niðurstaðan var sú að breytingarnar væru ekki til farsældar. Ríkisstjórnin ákvað að slá þær þá út af borðinu.
Stjórnvöld í Noregi hugðu að breytingum á fiskveiðistjórnuninni, en hurfu frá þeim, eftir að hafa séð að þau leiddu til vandræða í sjávarbyggðunum
Þannig kom til álita að leggja á veiðigjald, eins og hér er gert. Ríkisstjórnin lét fara yfir þá spurningu. Um það segir í grein Helga Áss: Eftir að hafa metið málið í heild sinni hefur ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunir strandsvæða séu best varðir með því að arður í fiskveiðum sé sem mest haldið innan atvinnugreinarinnar og innan strandsvæðanna...Ríkisstjórnin mun því ekki leggja á auðlindaskatt á þá sem stunda fiskveiðar í atvinnuskyni.
Sama var að segja um breytingar á framsali sem ríkisstjórnin velti fyrir sér. Um það segir Helgi Áss í grein sinni: Rauð-græna ríkisstjórnin afnam þetta ákvæði tímabundið og skipaði nefnd til að endurskoða málið en féllst svo á álit nefndarinnar um að leyfa bæri slíkt framsal.
Ólíkt hafa þeir sem sagt að. Rauðgræna ríkisstjórnin í Noregi hlustar á rök, hún íhugar málin og byggir niðurstöðu sína á athugunum á því sem gagnast þjóðinni best. Hér á landi vinna starfssystkini hennar með þver öfugum hætti. Þau keyra áfram málin á grundvelli kreddusjónarmiða og án faglegs undirbúnings og setja grundvallaratvinnuveg okkar í fjötra óvissu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook